Þarf að kjósa á tveimur stöðum á Akureyri?

Akureyringar kusu á nýjum stað í alþingis- og sameiningarkosningum sl. laugardag en kjörstaðurinn var fluttur úr Oddeyrarskóla í Verkmenntaskólann á Akureyri. Helgi Teitur Helgason formaður kjörstjórnar á Akureyri segir að þeir kjósendur sem mættu á kjörstað á milli kl. 13 og 18, hafi verið á því að kosningin hafi ekki gengið nógu vel fyrir sig. Eitthvað var um að fólk hafi snúið frá kjörstað en komið aftur síðar um daginn.  

Helgi Teitur sagði að öðru leiti hefði kosningin gengið ágætlega og að ekki hafi komið upp önnur vandamál en þau að langar biðraðir mynduðust á þessu tímabili. "Gangarnir í VMA eru það þröngir að þeir báru ekki allt þetta fólk. Einnig verður að hafa í huga að venjulega er kosningaþátttaka um 75-78% en nú var hún rúmlega 85%. Það skýrir eitthvað en ég er á því að við hefðum lent í sömu vandræðum í Oddeyrarskólanum og þar eru bílastæði mun færri. Við fjölguðum um eina kjördeild nú og fækkuðum um rúmlega 100 manns í hverri kjördeild til að létta álagið en það tókst ekki betur til en þetta."

Helgi Teitur segir að kjörstjórn þurfi að fara yfir málin, einn möguleikinn sé að bæta við einni álmu í skólanum og hafa þær þrjár. Þannig væri hægt að fækka kjördeildum í hverri álmu. "Það breytir ekki þeirri staðreynd að gangarnir eru þröngir, þarna var margt fólk, það gekk illa að loftræsta og því varð mjög heitt á göngunum. Þannig að slíkar breytingar leysa ekki öll vandamál og ef þær hugnast okkur ekki, er næsta skref að fara að kjósa á tveimur stöðum á Akureyri. Það voru tæplega 13.000 manns á kjörskrá og kannski er það orðinn of mikill fjöldi fyrir eitt hús í dag."

Helgi Teitur segir að það hafi einnig haft áhrif að kosningin á Akureyri var tvöföld, slíkt taki meiri tíma. Mun fleiri tóku þátt í sameiningarkosningunni nú en árið 2005, þegar kosið var um sameiningu Akureyrar og Hríseyjar. Kosningaþátttakan þá var um 21% en á laugardag var kosningaþátttakan rúmlega 75%.

Nýjast