„Þarf að einbeita mér að sjálfum mér og minni heilsu“

„Þetta hefur verið mjög lærdómsríkur tími og mig langaði mikið að halda áfram,“ segir Matthías. Mynd…
„Þetta hefur verið mjög lærdómsríkur tími og mig langaði mikið að halda áfram,“ segir Matthías. Mynd/Þröstur Ernir

„Þetta var mjög erfið ákvörðun að taka og ég er búinn að liggja yfir henni lengi. Ég var nú farinn að hallast að því fyrir nokkru síðan að ég myndi fara þessa leið en var að berjast við sjálfan mig,“ segir Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar á Akureyri og oddviti L-listans, í samtali við Vikudag.

Matthías tilkynnti það á Facebooksíðu sinni fyrr í vikunni að hann myndi ekki gefa kost á sér í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Hann kom nýr inn í bæjarstjórn eftir síðustu bæjarkosningar fyrir fjórum árum. Spurður um hvað hafi gert útslagið um að hann ætli hætta segir Matthías það vera af heilsufarsástæðum.

„Ég þarf að fara að einbeita mér meira að sjálfum mér og mínu lífi. Eins og kannski sést þá er ég töluvert of þungur og ég þarf að fara að taka á mínum málum. Ég hef fengið margar aðvaranir í gegnum tíðina, verið á ýmsum lyfjum og núna þarf ég að hægja á mér og forgangsraða rétt,“ segir Matthías.

Kveður bæjarmálin með söknuði

Matthías segir starf bæjarfulltrúa vera mikla vinnu. „Hvort sem þú ert í einhverri annari vinnu með eða ekki þá er þetta rosalega mikil vinna. Ég hef
verið það heppinn að geta stýrt mínum vinnutíma þar sem ég er í eigin rekstri,“ segir Matthías. „En fjölskyldan fagnar þessari ákvörðun gríðarlega þar sem ég sé fram á að geta varið meiri tíma heima hjá mér með mínu fólki. Þau hafa líka áhyggjur af mér og eru þessa vegna ánægð með þessa niðurstöðu.“

Matthías segist kveðja bæjarmálin með söknuði. „Þetta hefur verið mjög lærdómsríkur tími og mig langaði mikið að halda áfram. Þetta er skemmtileg og gefandi vinna, þó þetta sé oft erfitt líka á köflum.“ Spurður hvort hann sé hættur í pólitík segir Matthías það óvíst. „Það er aldrei vita hvað gerist í framtíðinni og ég útiloka ekki neitt.“


Athugasemdir

Nýjast