Þambara vambara þeysisprettir, því eru hér svo margir kettir?

Snævarr Örn Georgsson.
Snævarr Örn Georgsson.

Fyrr í vor sendi Siglfirðingurinn Sigurður Ægisson tillögu á skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar sem fól í sér að lausaganga katta yrði bönnuð í sveitarfélaginu. Erindið var samþykkt enda engin rök með því að einn hópur gæludýraeigenda sleppi við það að bera nokkra ábyrgð á sínu dýri á meðan aðrir þurfa að hafa sín dýr undir ströngu og stöðugu eftirliti. Þá rann kattareigendum kalt vatn milli skinns og hörunds enda sáu þeir fram á að þurfa að hugsa um dýrið sitt eins og aðrir dýraeigendur. Við tóku persónuárásir og svívirðingar á internetinu þar sem engu var til sparað.

Sigurður Ægisson, sem hefur stundað fuglamerkingar og –talningar í sjálfboðavinnu í 40 ár frá 1980 og hefur gert meira fyrir íslenska náttúru en flestir, var allt í einu orðinn „dýranýðingur“, „fáviti“ og einhver sem „hatar dýr“. Ætli ég eigi ekki von á einhverju svipuðu fyrir þennan pistil. En þessi mjög svo ómálefnalega aðferð kattareigenda virkaði þó því að bæjarstjórn Fjallabyggðar lét undan þrýstingi og snéri við ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins. Ég vona að bæjarfulltrúar á Akureyri séu með meiri bein í nefinu og láti ekki persónuárásir og svívirðingar stjórna ákvörðunum sínum.

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég er alls ekki að tala fyrir því að kettir séu bannaðir, ég skil vel að fólk vilji eiga gæludýr og í þessum malbiks- og steypufrumskógi sem við höfum byggt er mjög gott fyrir okkur að hafa einhverja tengingu við dýr og náttúruna. Ef einhverjir vilja fá þessa tengingu í gegnum ketti þá er það hið besta mál, en það fólk verður hins vegar að taka ábyrgð á köttunum og hugsa um þá líkt og aðrir gæludýraeigendur. Það að eiga gæludýr eru forréttindi, ekki mannréttindi, og þessum forréttindum fylgja skyldur. Það þekki ég sjálfur vel eftir að fara tvisvar á dag í göngutúr með hundinn minn í bandi og týna upp eftir hann hvern einasta skít. Og þó að ég setji alla kattareigendur undir sama hatt í þessum pistli þá eru auðvitað aðilar sem að taka ábyrgð á köttunum sínum og láta þá ekki ganga um lausa öðrum til ama, sjálfur þekki ég kattareigendur sem fara aldrei út með kettina sína nema í ól og eru til fyrirmyndar.

Af hverju er lausaganga leyfð?

Af hverju kettir, einir gæludýra, fá að ganga um lausir og gera þarfir sínar þar sem þeim sýnist, drepa önnur dýr og fara inn á önnur heimili er mér hulin ráðgáta. Þarfasti þjónninn, besti vinur mannsins og íslenska sauðkindin, allt dýr sem hafa gert og gera mun meira fyrir okkur mannfólk, fá það ekki einu sinni. Við skulum byrja að skoða hvað lög og reglur segja:

23. gr. laga 55/2013 um velferð dýra:

Óheimilt er að sleppa dýrum sem hafa alist upp hjá mönnum út í náttúruna í þeim tilgangi að þau verði þar til frambúðar. 

24. gr. laga 55/2013 um velferð dýra:

Ef dýr strjúka eða sleppa úr haldi skulu umráðamenn þeirra þegar gera ráðstafanir til að handsama þau. Viðkomandi sveitarfélagi er skylt að taka slík dýr í vörslu sína, lesa af einstaklingsmerkjum og gera þegar ráðstafanir til að hafa uppi á umráðamanni þeirra.

65. gr. laga 60/2013 um náttúruvernd

Sá sem ber ábyrgð á innflutningi lifandi framandi lífvera sem ekki er ætlað að dreifa skal gæta sérstakrar varúðar og grípa til allra þeirra ráðstafana sem sanngjarnt verður talið svo koma megi í veg fyrir að lífverurnar sleppi og dreifist.

Geta bæjarfulltrúar á Akureyri svarað því af hverju kattareigendur mega sleppa lausu innfluttu rándýri ættuðu frá Afríku? Af hverju þurfa kattareigendur ekki að bera ábyrgð á sínu gæludýri líkt og hundaeigendur og aðrir gæludýraeigendur?

10. gr. samþykktar um kattahald á Akureyri segir:

Eigendur og umráðamenn katta skulu gæta þess vel, að kettir þeirra valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða raski ró manna.

Hvernig kattareigendur geta séð til þess að kettirnir þeirra eru ekki að valda óþrifnaði eða truflun þegar þeir ganga lausir án alls eftirlits veit ég ekki, enda er staðreyndin sú að enginn eigandi lausagöngukattar uppfyllir þetta skilyrði.

 

Skógarþrösturinn á myndinni þraukaði síðasta vetur erlendis og flaug svo yfir Atlantshafið alla til Siglufjarðar til þess eins að enda í kjaftinum á heimilisketti sem drap hann sér til skemmtunar. Mynd tekin af Sigurði Ægissyni á Siglufirði vorið 2021.

Af hverju er lausaganga katta slæm?

Augljóstasta ástæðan er að kettir eru mjög afkastamikið rándýr ættað frá Afríku sem íslensk náttúra er ekki þróuð til að verjast. Kettir drepa hundruðir, ef ekki þúsund fugla á Akureyri á hverju einasta ári. Vorið 2020 gat ég staðfest dráp katta á skógarþröstum (nokkrum), þúfutittlingi, svartþresti og hrossagauk í grennd við heimili mitt í Gerðahverfi. Ég veit um kött sem eigendur tóku inn þegar hann var búinn að koma heim með 7 fugla á örfáum dögum. Aðili hér í bæ hefur stundað fuglamerkingar í áratugi og á veturna merkir hann villta fugla sem koma í garðinn hans. Hann hefur mest talið 13 mismunandi ketti sem sátu um fuglana í garðinum hans á stuttu tímabili, það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi en sem plágu. Það er ekki að ástæðulausu að eyjasamfélögin í Flatey á Breiðafirði, Grímsey og Hrísey banna lausagöngu katta (þau tvö síðarnefndu eru hluti af Akureyri). Í Grímsey mega kettir ekki einu sinni koma í eyjuna. Á öllum þessum stöðum er ríkt fuglalíf og lausir kettir myndu valda óbætanlegum skaða. Þess má geta að lausaganga katta er óleyfileg á Húsavík sem og í öðru þéttbýli í Norðurþingi, það eru því til góð fordæmi. Vil svo ítreka að bjöllur og kragar gagnast eggjum og ungum nákvæmlega ekki neitt.

 

Svartþröstur drepinn af ketti þrjá metra frá hreiði sínu í Stóragerði á Akureyri vorið 2020.

Kettir fara inn um opna glugga á heimili hjá hverjum sem er. Ég persónulega hef tvisvar sinnum vaknað við ókunnugan kött í rúminu mínu (áður en ég eignaðist hund). Nágranni minn á dóttur sem er með ofnæmi fyrir köttum og áttu þau í vandræðum með kött í hverfinu sem að kom ítrekað inn til þeirra, kötturinn var í eigu leigjanda hjá mér svo kvartanirnar lentu á mér. Í fréttum er svo reglulega sagt frá köttum sem fara inn á ókunnug heimili og stela þaðan fötum og öðru dóti.

Í júlí 2020 var það í fréttum að köttur á Akureyri hafði verið nágrönnum til vandræða, m.a. farið inn til þeirra um opinn glugga og skitið í stofusófann þeirra. Í kjölfarið rigndi inn frásögnum íbúa á Akureyri þar sem kettir voru til allskonar vandræða og að fara inn á heimili fólks.

Í kjölfarið á þessari umræðu skrifaði Þorsteinn Pétursson pistil í Vikublaðið sem bar heitið “Til varnar kisum”. Í pistlinum segir hann orðrétt:

“Auðvitað er það hvimleitt ef kettir t.d. míga á þröskulda hjá fólki en auðvelt er að vinna gegn því. Einnig að venja ókunna ketti að gera sig heimakomna. Konan sem viðtalið var við hefði átt ef hún vildi ekki að þessi gestur kæmi inn að minnka rifuna á glugganum eða eins og ég þekki til, setja netgrind en samt geta haft gluggan opinn”

Lausnin hans Þorsteins er sem sagt að bæjarbúar eiga að eyða sínum tíma í að þjálfa gæludýr annara. Ég á að þjálfa köttinn hans í að skíta ekki hvar sem er og venja ókunnuga ketti á að gera sig heimakomna hjá mér. Einnig eiga bæjarbúar að eyða tíma og fjármunum í að breyta húsnæði sínu til að verjast gæludýrinu hans. Þvílíkt heimtufrekja, allir aðrir en kattareigendur eiga að grípa til aðgerða. Kattareigendur eru alltaf stikkfrí. Þorsteinn endar svo pistil sinn með þeim orðum að hann voni „að fólk fái að eiga sína ketti í friði og þeir fái frjálsa útivist”. Að Þorsteinn eigi sinn kött í friði er einmitt það sem verið er að biðja um, best væri ef hann væri með kettinum sínum öllum stundum í friðhelgi heimilis síns. En hvað með þá sem vilja fá að vera í friði fyrir gæludýrum annarra? Er réttur kattareigenda til að taka enga ábyrgð og troða sínum dýrum upp á aðra meiri en réttur fólks sem vill fá að vera í friði fyrir köttum og öðrum gæludýrum á heimili sínu og görðum sínum?

Þegar fólk þarf að breyta húsnæði sínu til að verjast ágangi katta þá eru þeir ekki lengur gæludýr heldur meindýr. Ég eignaðist nýlega mitt fyrsta barn og mér var bent á að setja net á barnavagninn þegar barnið sefur úti. Ekki til að verjast flugum, nei, heldur svo að kettir fari ekki í vagninn. Er þetta í alvörunni í lagi? Við setjum börnin okkar í búr til að verja þau fyrir köttum, ætti það ekki að vera öfugt eða eru kettir rétthærri en við mannfólk og börnin okkar? Kettir flakka inn á þau heimili sem þeim sýnist og bókstaflega stela þaðan og skíta í sófann hjá fólki. Ég mætti þetta ekki. Ég spyr í fúlustu alvöru, eru kettir orðnir rétthærri en við mannfólkið? Þurfa kattareigendur ekki að bera neina einustu ábyrgð á sínu gæludýri. Hvenær hætta kettir að vera gæludýr og hvenær byrja þeir að vera meindýr? Mörkin eru allavega orðin frekar óljós og það styttist í að margir landsmenn þurfi að grípa til róttækra aðgerða til að verjast þessari kattarplágu, eigendur kattana virðast allavega ekki vilja gera neitt í málinu, allir aðrir eiga að verja sig fyrir dýrunum þeirra.

Kettir drepa ekki bara fugla, þeir drepa önnur gæludýr, t.d. kanínur og dæmi eru um að þeir ráðist á hunda (þó það endi misvel fyrir kettina). Sumarið 2020 komst það í fréttirnar að köttur í Kópavogi drap gæludýrakanínu og sat um garð eiganda kanínunnar til að ná í aðra kanínu sem lifði af fyrri árás kattarins. Eigandi kattarins lét hafa eftir sér:

“Því miður er það eðli katta að eltast við smádýr enda settum við stóra bjöllu á hann. Hann hefur aldrei verið til vandræða en greinilega kominn með augastað á kanínunum ykkar. Vissara fyrir ykkur að hafa þær í búri, hann missir vonandi áhugann á þeim fljótlega”

Kettir þvælast út um allt og skíta og míga alls staðar. Skil vel að þú sért reið en það er ekki við Snúð að sakast. Svona er kattareðlið, leiðinlegt að kanína sonar þíns skyldi verða fyrir þessu. Erfitt að halda kisum fyrir utan garða nema byggja þak yfir þá.”

Er þetta eðlilegt? Eru kattareigendur orðnir svona góðir með sig og kettir virkilega svo réttháir að þeir mega gera það sem þeim sýnist, drepa önnur gæludýr og það er vandamál allra annarra? Allir aðrir eiga að fara að eyða tíma og fjármunum og breyta hegðun sinni til að verjast þeirra gæludýri. Þetta hljómar meira eins og meindýr frekar en gæludýr. Má ég drepa gæludýr annara? Af hverju má köttur það? Þetta er ekki í lagi.

Kettir skíta þar sem þeim sýnist, einkum í sandkassa, blómabeð og matjurðargarða. Er það eðlilegt að sandkassar þurfa að vera með loki til að vernda börnin okkar fyrir kattaskít? Ég safna lífrænum úrgangi í moltukassa í garðinum mínum og á hverjum einasta sólarhring koma kettir hverfisins og róta í honum. Félagi minn á kartöflugarð sem að kettir hverfisins nota óspart sem kattasand honum til ama. Hver er munurinn á kattaskít og hundaskít? Af hverju er ekki jafnt yfir alla látið ganga? Af hverju þarf einn hópur gæludýraeigenda ekki að taka neina ábyrgð heldur getur varpað því yfir á aðra bæjarbúa að þrífa upp skítinn eftir sig, bókstaflega.

Kettir breima á næturna og halda vöku fyrir fólki, ég þekki þetta af eigin raun. Það væri hart tekið á geltandi hundi sem að héldi vöku fyrir nágrönnum, af hverju er öðruvísi farið með ketti? Enn og aftur þurfa kattareigendur ekki að bera neina ábyrgð og ekkert að hugsa um sitt gæludýr jafnvel þó það valdi ónæði og trufli aðra.

 

Hrossagaukur drepinn af ketti í Háagerði á Akureyri vorið 2020.

Hver er rökin fyrir því að leyfa lausagöngu katta?

„Kettir eru útidýr sem þurfa að fá hreyfingu og vilja ekki vera lengi inni.“

-          Það er gott og blessað, þá geta kattareigendur farið út með kettina í bandi líkt og hundaeigendur. Hundar vilja og þurfa hreyfingu og hundaeigendur hreyfa sína hunda, jafnvel smæstu smáhunda, og því er ekkert því til fyrirstöðu að kattareigendur geri slíkt hið sama. Hugtakið „innikisa“ er jafnframt vel þekkt og þekki ég nokkrar slíkar. Ég á vinafólk sem á tvo ketti sem fara aldrei út nema í bandi, alveg til fyrirmyndar. Það mun kannski taka 2-3 kynslóðir af köttum en eftir það munu kettir ekki þekkja neitt annað.

„Það er ekki hægt að temja ketti eins og hunda, þeir þurfa að fá að vera villtir“

-          Ef ekki er hægt að temja ketti, ekki hægt að hafa þá innandyra og ekki hægt að hafa þá í haldi manna nema í stuttan tíma í senn, þá er það orðin nokkuð sterk vísbending um að kettir eru bara hreinlega ekki hentug gæludýr í þéttbýli árið 2021. Það eru óteljandi dýrategundir í heiminum og sumar henta hreinlega ekki sem gæludýr. Hundar, hestar og flest önnur gæludýr eru hópdýr. Kettir (að ljónum undanskyldum) eru einfarar, það ætti ekki að koma neinum á óvart að þeir henti takmarkað sem gæludýr.

Ef hundur lætur illa að stjórn og hlýðir ekki þá er hann einfaldlega ekki notaður til undaneldis, jafnvel lógað. Stjórnlaus mökun lausagöngukatta er eitt af því sem kemur í veg fyrir að hægt sé að ala ketti sem hentugri gæludýr. Stjórnlausu og erfiðu kettirnir fá að fjölga sér óáreittir.

„Krummi og máfar drepa líka unga“

-          Mjög vinsælt hjá kattareigendum að benda á aðra. Já, það er alveg rétt að krummi og máfar drepa unga. Náttúran er grimm og miskunnarlaus. Það er ekki að ástæðulausu að rjúpan verpir allt að 14 eggjum og skógarþrösturinn verpir 4-6 eggjum allt að þrisvar sinnum á sumri. Með samblöndu af rándýrum, vondum veðrum og farflugi yfir N-Atlantshafið eru mjög há afföll í náttúrunni. Við eigum alls ekki að vera að auka þau afföll með því að sleppa lausu innfluttu rándýri frá Afríku sem sérhæfir sig í að veiða fugla. Það er bæði ólöglegt og siðlaust. Krummi og máfar veiða fuglsunga til að fæða afkvæmi sín sem er allt partur af hringrás lífsins og náttúrunni. Heimiliskettir drepa sér til skemmtunar. Ég skora á íbúa bæjarins að vakna eldsnemma og fara í göngutúr í bjartri sumarnóttinni þegar kettir eru helst að veiða, það eru góðar líkur á því að rekast á ketti leika sér að ófleygum skógarþrastarungum. Það er aumkunarvert af kattareigendum að benda á náttúrulegt ferli sem rök fyrir því að þeir megi hafa neikvæð áhrif á það sama náttúrulega ferli.

„Þetta er partur af náttúrunni“

-          Við skulum hafa það á hreinu að það er nákvæmlega ekkert náttúrulegt við innflutt rándýr frá Afríku sem gengur laust á eyju við norðurheimskautsbaug. Fyrir utan þá augljósu staðreynd að kettir eru ekki hluti af íslenskri náttúru þá fá þeir skjól í vondum veðrum og mat allan ársins hring, e-ð sem að fuglarnir sem þeir veiða fá ekki, og því myndast ekkert fylgnisamband milli stofnstærðar rándýrs og bráðar.

Í náttúrunni eru kettir jafnframt einfarar (ljón undantekning) sem helga sér stórt óðal. Í þéttbýli er ekki slíku fyrir að fara, þéttleiki katta er mjög mikill og mjög ónáttúrulegur. Hver einasti garður á Akureyri er skoðaður af ketti svo til hverja einustu nótt, ófleygir fuglsungar eiga því margfalt minni möguleika en í náttúrunni þar sem rándýr þurfa að helga sér stór óðul til að framfleyta sér. Þrastarungar hoppa úr hreiðrum áður en þeir verða fleygir því ef rándýr finnur hreiðrið deyja þeir allir, ef þeir hafa dreift sér eru meiri líkur að einhverjir sleppi. Náttúran hins vegar reiknar ekki með þeim gífurlega þéttleika lausagöngukatta sem er í þéttbýlinu á Akureyri og endar því alltof hátt hlutfall þrastarunga í kattarkjafti. Það er ekkert náttúrulegt við lausagöngu katta á Akureyri.

 

Skógarþröstur í kjafti heimiliskattar á Akureyri. Kettir eru mjög öflug rándýr og bjöllur hafa takmarkað gagn. Mynd tekin af Eyþóri Inga Jónssyni í Vanabyggð á Akureyri.

„Kettir veiða rottur og mýs“

-          Það má vel vera, en ég treysti mér alveg sjálfur til þess að halda mínu heimili lausu við mýs, ég þarf ekki aðstoð kattareigenda við það. Það er jafnframt árið 2021, öll hús í dag eiga að vera músaheld, ef fólk á í vandræðum með rottur eða mýs þá þarf það að fá sér smið, múrara eða pípara, ekki kött. Fyrir utan að ég hef aldrei séð rottu á Akureyri og hef ekki miklar áhyggjur af rottufaraldri þó kettir gangi ekki lausir. Í Norðurþingi er lausaganga katta bönnuð og ekki er neinn músa- eða rottufaraldur þar. Þetta er ekkert nema hræðsluáróður kattareigenda sem nenna ekki að hugsa um dýrið sitt.

Rottur geta jafnframt borið allskonar sníkjurdýr og sjúkdóma. Ef kettir eru að umgangast rottur, atast í þeim og jafnvel fá á sig blóð og líkamsvessa þeirra eftir að hafa drepið þær, þá er það enn meiri ástæða fyrir því að ég vil ekki ketti í garðinn minn þar sem barnið mitt leikur sér.

„Kettir hafa fylgt manninum frá landnámi“

-          Og? Það er mun lengra síðan menn fóru að nýta sér hunda og ekki fá þeir að ganga lausir í þéttbýli, eða hestar, kindur, beljur eða svín. Kattareigendur segja þetta í fúlustu alvöru eins og engin lög eða reglur hafa breyst síðan 874. Ég ætla nú líka rétt að vona að umhverfisvitund okkar hafi nú eitthvað skánað frá landnámi. Það að eitthvað hafi verið gert áður réttlætir ekki að það sé gert þannig til eilífðarnóns, aðstæður breytast og við mannskepnan erum í stöðugri þróun og leitum sífellt nýrra leiða til að minnka áhrif okkar á umhverfið. Að hætta að sleppa út afrísku rándýri á Íslandi er góður liður í því. Aðstæður voru auk þess allt aðrar áður fyrr, lengi vel og þar til fyrir ekki svo löngu bjuggu svo til allir landsmenn í dreifbýli og/eða við sjálfsþurftarbúskap. Að hafa kött á sveitabæ er allt annað en allur þessi kattafjöldi í þéttbýli sem veldur óþrifnaði, ónæði og ryksugar upp fuglsunga þökk sé gríðarlegum þéttleika.

 

Hver eru því rökin fyrir lausagöngu katta? Vegur réttur kattareiganda til að taka ekki ábyrgð á sínu gæludýri þyngra heldur en réttur samfélagsis til að verða ekki fyrir ónæði af umræddu gæludýri? Ég skora á bæjarfulltrúa að beita sér fyrir því að jafnt gangi yfir alla gæludýraeigendur og lausaganga katta verði bönnuð, bæjarbúum og umhverfinu til bóta.

-          Vinstri Græn hljóta að taka stöðu með náttúrunni.

-          Samfylkingin hlýtur að vilja tryggja jafnræði meðal gæludýraeigenda og að einn hópur njóti ekki forréttinda umfram aðra.

-          Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að vilja standa vörð um réttindi og friðhelgi fólks á heimilum og lóðum sínum og að ekki sé troðið á þeim rétti.

-          Flokkur fólksins hlýtur, af nafninu að dæma, að setja réttindi fólks ofar réttindum katta.

-          Framsóknarflokkurinn getur varla verið hrifinn af því að innflutt rándýr fái að valda usla og skaða á íslenskri náttúru.

Þetta kostar engar aðgerðir eða útgjöld fyrir bæinn og nú er líka tækifæri fyrir bæjarfulltrúa sem stefna á þing að sína að þeir hafi bein í nefinu og fari eftir rökum og skynsemi en láti ekki undan kröfum sérhagsmunahóps sem vill varpa öllu yfir á samfélagið.

-Virðingarfyllst, Snævarr Örn Georgsson


Nýjast