Þakklátur fyrir lífið og góðu heilsu

Þröstur með góðum hluta fjölskyldunnar í Flatey á góðri stundu
Þröstur með góðum hluta fjölskyldunnar í Flatey á góðri stundu

Þröstur Friðfinnsson sveitarstjóri í Grenivík fagnaði 60 ára afmæli á dögunum. Þröstur hefur verið sveitarstjóri í sjö ár og kann vel við sig í Grýtubakkahreppi. Vikublaðið fékk hina hliðina af Þresti sem er Norðlendingur vikunnar.

Þr

-Til hamingju með stórafmælið um daginn. Ertu búinn að halda vel upp á stóra daginn?

„Takk fyrir. Ekkert varð úr utanferð, en ég átti algerlega frábæran dag með nánustu fjölskyldu út í Flatey á Skjálfanda. Stefán Guðmundsson og hans fólk hjá Gentle Giants á Húsavík sáu um ferðir og veisluföng svo ekki verður betur gert.“

-Hvað kemur upp í hugann á svona tímamótum?

„Það er nú kannski helst þakklæti. Fyrir góða heilsu og lífið almennt.“

-Hvað er annars helst að frétta úr Grenivík?„

Fyrir utan góða veðrið í sumar, er það helst að hér ríkir meiri bjartsýni á framtíðina, uppbygging í atvinnumálum framundan sem mun vonandi ganga vel og styrkja samfélagið og búsetu til lengri tíma.“

-Hvaðan ertu?

„Frá Húsavík.“

-Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér í lífi og starfi?

„Ég er orðinn það fullorðinn að ég vakna yfirleitt frekar snemma. Oft upp úr kl. 6. Renni yfir fréttamiðla og Facebook, síðan kemur morgunsturtan, en í henni hugsa ég og hugmyndir fæðast. Vatnið hefur góð áhrif á hugann og örvar sellurnar. Svo er vinnan, hún er mjög fjölbreytt, flest sem getur komið á borð sveitarstjóra. Fleiri daga en færri eru einhverjir fundir, vinnudagurinn byrjar um kl. 8 og endist mislangt fram eftir, oft fram undir kvöldmat og stundum lengur. Svo er oftast rólegt yfir mér fyrir framan sjónvarpið þegar kemur fram á kvöld. Sundferð síðdegis ef tími er til og veður gott.“

-Fjölskylduhagir?

„Giftur Elínu Sigurðardóttur, eigum alls 4 börn og barnabörnin eru orðin 6.“

-Helstu áhugamál?

„Íþróttir, útivist, tónlist, veiði og ferðalög.“

-Hvað gerðirðu í sumarfríinu?

„Fórum bara styttri ferðir innanlands, gengum í Stórurð og að eldgosinu, hvort tveggja magnað, reyndi að sinna golfinu aðeins og svo fjölskyldunni.“

-Áttu þér uppáhaldslið í enska boltanum?

„Nei, en finnst gaman að horfa á góðan bolta og Barcelona hefur verið lengi í uppáhaldi.“

-Hvert langar þig helst að ferðast í næstu utanlandsferð?

„Ætli það verði ekki Norður Ítalía. París er líka ofarlega.“

-Hvað borðarðu í morgunmat?

„Ég hef aldrei haft matalyst á morgnana, hef oftast sleppt morgunmat, allt frá því mamma streðaði við að koma einhverju í mig fyrir skóla þegar ég var krakki. Kaffi og súkkulaði um helgar.“

-Hvaða sjónvarpsseríu mælirðu helst með?

„Skandinavískar og breskar glæpaseríur eru í uppáhaldi á heimilinu. Svo stendur gamla breska gamanserían Já ráðherra alltaf upp úr, ekki síst eftir að maður fór að kynnast stjórnsýslunni betur.“

-Hvað gerirðu til að slappa af?

„Heiti potturinn í sundlauginni okkar er frábær.“

-Hvaða tónlistarmaður eða hljómsveit er í mestu uppáhaldi hjá þér?

„Hlusta á mjög fjölbreytta tónlist, allt frá Oscar Peterson til Pink. Andrea Bocelli hefur lengi verið í uppáhaldi.“

-Hvernig er fullkomin helgi hjá þér?

„Það er nú kannski að fá barnabörnin í heimsókn og sigla með þau um Eyjafjörð. Eða fara með þau í silungsveiði. Golf og slökun í heita pottinum á eftir.“

-Hvað yrði fyrir valinu ef þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk?

„Nautalund og gott rauðvín.“

-Hvaða lag kemur þér í gírinn?

„Gírarnir eru mismunandi, Wonderful world með Louis Armstrong færir manni alltaf ákveðna stemmningu og vellíðan. Afrísk músík og frá Karíbahafseyjum kemur blóðinu á hreyfingu.“

-Stundarðu líkamsrækt?

„Ekki markvisst. Golf, gönguferðir og útivist halda manni í sæmilegu formi.“

-Uppáhaldsdrykkur?

„Kóka kóla.“

-Hvar sérðu þig eftir 10 ár?

„Ef heilsa helst góð, væri gaman að búa í heitara landi alla vega yfir vetrartímann, spila golf og kannski sigla milli strandbæja.“

-Ef þú þyrftir velja allt annan starfsframa, hver yrði hann?

„Sjórinn alltaf togað aðeins. Sigla með ferðamenn t.d. í hvalaskoðun væri áhugavert.“

-Hlustarðu á podcast og þá hvað helst?

„Ekki gert mikið af því.“

-Hvaða áttu helst eftir ógert?

„Fara holu í höggi.


 

Greinin birtist fyrst í prentútgáfu Vikublaðsins. Hægt er að tryggja sér áskrift með því að smella HÉR. Þannig stuðlar þú að öflugri fjölmiðlun á Norðausturlandi

/Þev


Athugasemdir

Nýjast