Það verður hár kyn- þokkastuðull á sviðinu

Sigurvin Jónsson og haninn Hrólfur, stíga á svið með Guðna Ágústssyni fyrrverandi landbúnaðarráðherr…
Sigurvin Jónsson og haninn Hrólfur, stíga á svið með Guðna Ágústssyni fyrrverandi landbúnaðarráðherra á Græna hattinum í kvöld.

Uppstand verður á Græna hattinum í kvöld, þar sem Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra og Sigurvin Jónsson eða Fíllinn, ásamt hananum Hrólfi ætla að fara á kostum.  Sigurvin sagði í samtali við Vikudag að hér gefist bæjarbúum, og ekki síst konum, tækifæri á að sjá tvo af föngulegustu karlmönnum landsins, sem og eina fullorðna hana bæjarins, sem verður reyndar í búri á sviðinu. “Það er ekki hægt annað en að hafa Hrólf í búri, svo hann fari ekki að æða um salinn og valda usla.”

Sigurvin sagði að það yrði hár stuðull af kynþokka á sviðinu og hann á því von á að konur muni fjölmenna. Hann gerir jafnframt ráð fyrir því að það verði hart barist um borðin næst sviðinu. Til að sem flestir geti fengið að sjá þá félaga, verða tvær sýningar í kvöld, sú fyrri kl. 20 en sú seinni kl. 23.00. “Maður reynir að tjalda öllu sem til er og sjálfur stefni ég að því að mæta í hreinni skyrtu í tilefni dagsins. Það eru heldur ekki á hverjum degi sem fíll og fyrrverandi landbúnaðarráðherra standa saman á sviðinu.”

Aðspurður um tengsl sín við Guðna, þá sagðist Sigurvin ekki þekkja hann neitt en að hann vissi þó að Guðni væri skemmtilegur. “Ég fer aldrei troðnir og Guðni tók bara vel í þetta. Mér fannst líka eðlilegt að fá til liðs við mig síðasta hreinræktaða landbúnaðarráðherrann, ekki síst þar sem ég er eini stórbóndinn á Akureyri. Þannig að sé sló sömu flugunni í bæði höfuð. Þetta er heimsviðburður og ég lofa skemmtilegu kvöldi,” Sigurvin, sem stundar hæsnabúskap á Eyrinni á Akureyri, eins og flestum er kunnugt.

 

 

 

Nýjast