Það verður enginn heylaus í vetur

„Það er alveg ljóst að enginn verður heylaus í vetur með þessu áframhaldi,“ segir Haukur Marteinsson…
„Það er alveg ljóst að enginn verður heylaus í vetur með þessu áframhaldi,“ segir Haukur Marteinsson bóndi á Kvíabóli og formaður Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga. Mynd Haukur Marteinsson

„Það er alveg ljóst að enginn verður heylaus í vetur með þessu áframhaldi,“ segir Haukur Marteinsson bóndi á Kvíabóli og formaður Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga. 

 

Haukur segir  heyskap ganga ágætlega á svæðinu og uppskeran er góð. „Spretta og gæði grasa er með almesta móti og uppskeran er eftir því,“ segir hann. Óþurrkatíð hafi leikið bændur misgrátt og gert að verkum að heyskapur hefur dregist á langinn. Heyfengur sé líka með blautara móti.

 

„Það var ansi mikil skúratíð í upphafi sumars, bændur sumir hverjir dokuðu eftir þurrki en aðrir stukku fyrr af stað, eins og gengur. Sumarið hefur verið ágætt, það er næg bleyta og hitinn hefur oftast verið þokkalegur, oft frá 10 og upp í 15 stig en sólin hefur ekki mikið látið sjá sig. Þessar aðstæður virka greinilega vel, góð spretta og mikið magn af heyi,“ segir Haukur.

 

20 rúllur af hektara

 

Hann nefnir að uppskeran hafi víða slagað í 20 rúllur af hektaranum í fyrsta slætti, sem er mun meira en í meðalári. Nefndi hann að ekki væri ólíklegt að áburður sem borinn var á tún í fyrrasumar sé líka að skila sér núna, miklir þurrkar einkenndu síðasta sumar og áburður ef til vill ekki náð að gera sitt gang vegna þeirra. Uppskeran í fyrra var léleg og því ánægjulegt hversu mikill heyfengur sé í ár. „Það eru vonandi allir ánægðir og sáttir með uppskeru núna,“ segir Haukur.

 

 


Athugasemdir

Nýjast