„Það var mikið þarna sem ekki er búið að endurnýja mjög lengi“

Hvalasafnið á Húsavík. Mynd: Hvalasafnið/Facebook
Hvalasafnið á Húsavík. Mynd: Hvalasafnið/Facebook

Hvalasafnið á Húsavík hefur verið lokað síðan í nóvember á síðasta ári en þar standa yfir umfangsmiklar framkvæmdir við endurnýjun á sýningarrýmum safnsins.

Heiðar hrafn

„Það eru í raun verið að endurgera flestar sýningar á neðri hæð safnsins. Þar með talið alla gömlu frystiklefana,“ segir Heiðar Hrafn Halldórsson verkefnastjóri safnsins en eins og staðkunnugir vita var húsnæði Hvalasafnsin áður sláturhús Þingeyinga.

„Við flotuðum gólfin en það hefur líklega aldrei verið gert áður. Þau voru bara hrá eins og frá því á sláturhústímanum,“ útskýrir Heiðar Hrafn og bætir við að sýningarhönnuðir komi með reglubundnum hætti og setji sitt mark á vinnuna.

Kominn sjálfur í málningargallann

Heiðar Hrafn er lærður málari og segist vera búinn að vera í málningargallanum síðustu misserin. „Já, það hefur oft komið sér vel að vera málari í þessu starfi,“ segir Heiðar Hrafn og hlær.

Aðspurður segir Heiðar Hrafn að ekki sé um sérstakar áherslubreytingar að ræða í tengslum við framkvæmdirnar. Það hafi einfaldlega verið kominn tími á endurnýjun í rýminu. „Það var mikið þarna sem ekki er búið að endurnýja mjög lengi. Kominn tími á ansi margt þarna,“ útskýrir hann og bætir við að eins og oft vilji verða í endurnýjunarframkvæmdum að eitt leiði af öðru, þannig komi ýmislegt í ljós sem ekki var séð fyrir í upphafi.

Ora-ljós í dós

„Þetta átti ekki að verða svona mikið í upphafi en þetta vatt svona upp á sig. Svo fórum við líka að endurnýja lýsingu. Það var búið að vera frá upphafi gamlar perur í heimasmíðuðum ljósum úr niðursuðudósum. Það var verið að nýta allt þegar safnið var hannað í upphafi til að hafa það eins ódýrt og hægt var. Við erum að skipta ora-dósunum út og uppfæra svo að segja alla lýsingu á safninu,“ útskýrir Heiðar Hrafn og bætir við að led-lýsing taki við af niðursuðudósunum.

„Þetta á allt að verða tæknivæddara, m.a. hægt að stýra lýsingunni í símanum og allt eftir því,“ segir Heiðar Hrafn sem oft er kenndur við Sandhóla á Tjörnesi.

Opnað í áföngum

Aðspurður um hvenær von sé á að Hvalasafnið opni dyr sýnar fyrir gestum á ný segir Heiðar Hrafn vonast til þess að það verði á næstu vikum. „Ég er að vonast til þess að við getum opnað að minnsta kosti hluta af safninu um miðjan mars. Frystiklefarnir innst á neðri hæðinni verða svo tilbúnir einn af öðrum fljótlega í kjölfarið. Við erum með aðalsýningarrýmið í forgangi,“ útskýrir hann.

„Við munum svo halda formlega opnun þegar allt er klárt og notum tækifærið til að vígja pallinn sem reistur var vestan við húsið í tengslum við uppbygginu Stéttarinnar, húsnæði Þekkingarnets Þingeyinga,“ segir Heiðar Hrafn að lokum.


Athugasemdir

Nýjast