Ég er hæstánægður með að vera kominn heim og mér fannst vera kominn tími á þetta, segir miðjumaðurinn Jóhann Helgason nýjasti liðsmaður KA. Jóhann gengur í raðir síns uppeldisfélags á nýjan leik en hann kemur á lánsamningi frá Grindavík og mun leika með KA-liðinu í 1. deildinni næsta sumar. Þetta er búið að vera í vinnslu lengi og fínt að þetta sé loksins komið í gegn, segir Jóhann og bætir því við að það séu spennandi tímar framundan hjá félaginu. Mér finnst vera ákveðin vakning í gangi hjá félaginu og mikill metnaður í að gera vel. Menn vilja rífa klúbbinn upp eftir lægð sem liðið hefur verið í síðustu ár og mig langar til þess að taka þátt í því. Honum líst vel á KA-liðið og segir það hafa burði til þess að berjast á toppnum næsta sumar. Það eru fullt af ungum og efnilegum strákum í þessu liði og í bland við reynslubolta. Ef liðið fær einn til tvo leikmenn í viðbót, sem þá yrði að vanda valið á, að þá tel ég að það sé ekki spurning um að við verðum í toppbaráttunni. Jóhann, sem er 28 ára, er gulur og blár í gegn. Hann spilaði með KA upp allra yngri flokkana og á að baki 51 meistaraflokksleik í efstu deild, 1. deild og bikar með KA á árunum 2002-2006. Þá gekk hann til liðs við Grindavík og hefur síðan spilað þar samtals 126 leiki, þar af spilaði hann 24 leiki á liðnu keppnistímabili með Grindvíkingum í Valitor-bikarnum og Pepsi-deildinni. Í þessum 177 meistaraflokksleikjum hefur Jóhann skorað 21 mark. Þá á hann að baki fimm landsleiki á árunum 2001-2003 með U-18, U-19 og U-21 ára landsliðum Íslands.
Spennandi 1. deild
Jóhann segir spennandi að takast á við 1. deildina sumar sem hann segir vera sterkari núna en undanfarin ár. Þetta á eftir að vera mjög jafnt og spennandi. Það eru 5-6 lið sem ætla sér upp og það er ekkert lið sem maður er að sjá að verði eitthvað yfirburðarlið í deildinni, segir Jóhann. Hann er þriðji leikmaðurinn sem gengur í raðir KA frá liðnu sumri en þeir Gunnar Valur Gunnarsson og Bjarki Baldvinsson hafa einnig samið við félagið. Samkvæmt heimildum Vikudags hafa KA-menn ekki lokað veskinu og ætla m.a. að krækja í sóknarmann fyrir sumarið.