"Það er kominn tími á sigur"
Þór og Fylkir mætast á Þórsvelli í dag í Pepsi-deild karla í knattspyrnu en heil umferð fer fram í deildinni í dag og hefjast allir leikirnir kl. 17:15. Eftir úrslit síðustu umferðar eru Þórsarar aðeins fjórum stigum frá fallsæti og þurfa því nauðsynlega á sigri að halda í dag. Að 18 umferðum loknum hefur Þór 18 stig í tíunda sæti, fjórum stigum meira en Fram sem er í næstneðsta sæti og eigir von um að halda sæti sínu í deildinni. Þór hefur ekki unnið leik í síðustu fimm umferðum, en síðasti sigur liðsins kom einmitt gegn Fram þann 3. ágúst.
„Okkur finnst vera kominn tími á sigur, þó fyrr hefði verið,“ segir Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs. „Við ætlum að taka vel á móti Fylkismönnum í dag og sýna fyrir framan okkar fólk að við séum alls ekki hættir þó að einhverjir haldi því fram.“ Fylkir siglir lygnan sjó miðja deild með 25 stig í sjötta sæti og segir Páll möguleikana gegn þeim ágæta.
„Þeir hafa verið svolítið upp og niður í sumar en þetta er hörkulið. Þeir hafa unnið tvo síðustu leiki og þetta verður stál í stál. Við þurfum bara að vera úti með kassann og taka þessi þrjú stig,“ segir Páll.
Nánar er rætt við Pál í Vikudegi í dag.