Það er gott að búa á Akureyri

Steinunn María.
Steinunn María.

„Þetta nær ekki hingað inneftir“. Ég heyrði þessi orð fyrst þegar við eiginmaðurinn fórum að draga okkur saman fyrir nokkrum árum og spáð var vondu veðri á Norðurlandinu eins og gengur og gerist. Nú hef ég ekki tölu á því hversu oft ég hef heyrt þau, sér í lagi eftir að ég fluttist til Akureyrar. Veður er eitt helsta umræðuefni og áhugamál Íslendinga. Þar erum við hjónin ekki undanskilin. Við komum hins vegar úr sitthvoru veðrakerfinu. Hann, Akureyringurinn, er vanari stöðugra blíðviðri en annesjabarnið frá Siglufirði. Hróðugur horfir hann á veðurfréttirnar og segir að ef spáð sé 12 gráðum á Akureyri, þá verði að minnsta kosti 14 stiga hiti. Þá hefur hann ósjaldan horft út um gluggann og tjáð mér að úti sé brjálað veður, þegar ég kem hreinlega ekki auga á óveðrið og finnst lítið til smá hríðarkófs koma.

Löngum hefur verið sagt um Akureyringa að þeir séu grobbnir, sérstaklega af góða veðrinu sem virðist eiga lögheimili í póstnúmeri 600. Þjóðin er enda komin með það á hreint að á Akureyri er alltaf gott veður, eins og kemur vel fram í útvarpsviðtölum sem tekin eru við fólk staðsett hér fyrir norðan. En er þetta grobb eða er eitthvað til í þessu? Mér er það ljúft að staðfesta að hér er oftar gott veður en ekki. Mun oftar.

Mín kenning er sú að „grobbið“ margumrædda sé einfaldlega einlæg ánægja Akureyringa með heimabæinn sinn. Svona almennt allavega. Og það þykir mér aðdáunarvert. Því hversu miklu betra er það fyrir lundina að búa og starfa í umhverfi sem manni þykir fallegt og er ánægður með, heldur en ef maður er hundóánægður með það? Síkvartandi og kveinandi yfir því sem fyrir augu ber, því sem vantar og svo framvegis. Grámóskuleg væri sú tilvera.

Hvaða augum við lítum tilveruna hefur nefnilega svo mikið að segja. Hversu sátt við erum með það sem er okkar og hvort við höfum þörf fyrir að sækja eitthvað eitthvert annað. Líður okkur vel heima hjá okkur? Óskum við þess að búa einhvers staðar annars staðar? Hlökkum við til að koma heim þegar við erum á ferðalagi? Hægt er að velta þessum spurningum fyrir sér út frá ýmsum sjónarhornum en þær verða alltaf persónubundnar. Okkar eigin reynsla, atvinna, áhugasvið og fjölskylduhagir hafa t.d. áhrif á það hvar við viljum búa og í hvernig samfélagi. Við erum ekki tré og getum fært okkur auðveldlega úr stað. Við getum þannig bundist mörgum ólíkum stöðum sterkum böndum um ævina.

Fyrir skömmu spannst umræða á samfélagsmiðlum um hver mætti kalla sig Akureyring og hver ekki. Tilefnið var pistill Hjörleifs Hallgríms sem birtist í Vikublaðinu í byrjun mánaðarins, þar sem hann gerði að umtalsefni hversu fáir „alvöru“ Akureyringar komu að afmælisþætti Akureyrarbæjar, sem var á dagskrá Rásar 2 í lok ágúst. Nú eru engar reglur til um það hvort og hvenær menn mega kalla sig Akureyringa enda vafalaust erfitt að setja slík viðmið og með öllu óþarft. Fólk finnur það með sjálfu sér. Sem betur fer voru flestir, ef ekki allir, sem tóku þátt í umræðunni á því að ekki ætti að draga fólk í dilka heldur fagna því að hingað vilji fólk flytja og gerast þátttakendur í samfélaginu.

Því eitt er víst. Við sem höfum flutt til Akureyrar höfum komið auga á eitthvað af því jákvæða sem hér er að finna. Hvort sem það var staðurinn sjálfur eða bara einn stakur Akureyringur.
Akureyri er rík af góðu mannlífi og nágrönnum, íþróttastarfi, menningu og listum, nálægð við náttúruna, svo ekki sé minnst á flugvöllinn. Ég gæti því með góðri samvisku sagt Gunnari vini mínum Birgissyni, með ögn bjartari röddu, að það sé ekki síðra að búa á Akureyri en í Kópavogi. Þó að það sé ekki nema bara vegna veðursins.

Ég skora á Finn Yngva Kristinsson, sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar, að skrifa næsta pistil.

-Steinunn María Sveinsdóttir, safnstjóri Flugsafns Íslands

 


Nýjast