„Það er eiginlega ekki hægt að flytja þessi lög nema með góðri blöndu af rugli og leikrænum tilburðum“

Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanóleikari, Björk Níelsdóttir, sópran, Erla Dóra Vogler, mezzó-sópran, Eyj…
Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanóleikari, Björk Níelsdóttir, sópran, Erla Dóra Vogler, mezzó-sópran, Eyjólfur Eyjólfsson, tenór og Hafsteinn Þórólfsson, baritón.

Norðlendingar geta búið sig undir klassíska tónlistarveislu þar sem hláturtaugarnar verða kitlaðar. Um er að ræða flutning á nýjum lögum eftir Þórunni Guðmundsdóttur hugleikara og tónskáld undir yfirskriftinni Eyrnakonfekt. Tónleikarnir verða í Bergi, Dalvík 19. Febrúar og í Hofi, Akureyri þann 20. Sama mánaðar.

„Við erum fimm tónlistarmenn, – fjórir söngvarar og píanóleikari. Tvær búsettar á Akureyri og þrjú á suðvesturhorni landsins,“ segir Erla Dóra Vogler, mezzó-sópran í samtali við Vikublaðið. Hún gaf út hljómplötuna Jórunn Viðar – Söngvar árið 2019 ásamt Evu Þyri Hilmarsdóttur. Platan fékk tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins.

 Tónlistarfólk í fremstu röð

Eyrnakonfekt

Tónlistarfólkið sem flytur Eyrnakonfekt er ásamt Erlu Dóru: Björk Níelsdóttir, sópran, sem valin var Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019 og tilnefnd til Grímuverðlaunanna sem söngvari ársins 2019.

Eyjólfur Eyjólfsson, tenór sem tilnefndur hefur verið tvisvar á Íslensku tónlistarverðlaununum sem söngvari ársins;

Hafsteinn Þórólfsson, baritón, sem var tilnefndur sem einsöngvari fyrir flutning ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2017;

Og Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanóleikari. Auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri  lagt mikla áherslu á flutning kammertónlistar og ljóðasöngs og komið fram með helstu klassísku söngvurum landsins.

En hverju geta áhorfendur átt von á?

„Þetta eru geggjuð lög, ógeðslega skemmtileg eftir Þórunni Guðmundsdóttur. Hún á alveg einstaklega auðvelt með að búa til mjög skemmtilega orðaleiki í textum sínum,“ segir Erla Dóra og bætir við að um sé að ræða klassíska tónlistarveislu með miklum húmor.

„Það er eiginlega ekki hægt að flytja þessi lög nema með góðri blöndu af rugli og leikrænum tilburðum,“ segir Erla Dóra og skellir upp úr. „Við erum líka bara þannig þessi hópur sem Þórunn valdi í þetta að við erum til í allt svoleiðis. Á tónleikunum flytjum við fjöldann allan af samsöngslögum, dúetta, tríó og kvartetta. Lögin eru öll fyrir söngvara og píanó og skiptast í þrjá flokka eftir efni: Sumarlög, Matarlög og Lög um ástina. Flestir textarnir eru bráðhlægilegir. Orðaleikir og húmor eru allsráðandi, auk þess sem tónlistin er á léttum nótum og flytjendur nógu ruglaðir til að gera eitthvað skemmtilegt úr öllu sem lagt er fyrir þá,“ útskýrir hún enn fremur.

 Mikið hlegið

Eyrnakonfekt hefur  þegar verið flutt á Þjóðlagahátíð á Siglufirði og á fernum tónleikum á Suðvesturhorninu og alls staðar hlotið mjög góðar undirtektir.

Erla Dóra segir að tónleikarnir séu vel til þess fallnir til að breikka þann hóp sem hlustar á klassíska tónlist. „Við erum öll með þannig raddir að þær eru mjög aðgengilegar. Það er einmitt mjög sniðugt að vera með svona húmor og vitleysu til að opna þennan heim aðeins betur fyrir Íslendingum,“ segir Hún.

 Vonast eftir afléttingum

Þá segist Erla Dóra vonast til að sóttvarnartakmarkanir verði eitthvað rýmkaðar fyrir tónleikana. Það myndi klárlega gera stemninguna enn þá skemmtilegri. „Vonandi, þetta er þannig prógram að það væri voða fínt ef fólk er bara með kaffi eða bjór í glasi með fullt frelsi til að njóta,“ segir hún og lofar frábærri skemmtun. „Alveg hiklaust, það hafa allir verið mjög jákvæðir til þessa. Það er stundum erfitt að átta sig á á viðbrögðum bak við grímurnar. Maður sér svona rétt viprur í augum þegar fólk brosir út að eyrum en svo heyrir maður auðvitað alltaf hláturinn,“ segir Erla Dóra að lokum.


Athugasemdir

Nýjast