Verkefnisstjóri atvinnumála hjá Akureyrarbæ hefur sagt starfi sínu lausi og mun láta af störfum í lok mars nk. Sævar Pétursson fráfarandi verkefnisstjóri atvinnumála kom á fund stjórnar Akureyrarstofu í vikunni og dró saman reynslu sína af starfinu, áherslum, helstu verkefnum og skipulagi. Hann taldi reynsluna almennt góða en benti á nokkur atriði sem betur mega fara, eins og skipulag í kringum atvinnuátaksverkefni hjá sveitarfélaginu, skýrari verkaskipti milli aðila eins og Akureyrarstofu, AFE og Impru.
Einnig kom fram hjá Sævari að mynduð hafi verið tengsl við um 100 fyrirtæki í bænum og er það mat hans að Akureyrarbær hafi nú mun gleggri mynd af atvinnulífinu en áður. Stjórn Akureyrarstofu ræddi um framhaldið, auglýsingu eftir nýjum starfsmanni og þær áherslur sem lagðar verða til grundvallar. Einnig samþykkti stjórnin að óska eftir því að verkefnisstjórn um atvinnumál komi með tillögur um hvaða áherslur eigi að leggja í starfinu áður en það verður auglýst. Helena Þ. Karlsdóttir fulltrúi S-lista lagði fram beiðni um skriflega skýrslu um störf verkefnisstjóra atvinnumála frá upphafi til dagsins í dag. Óskað er eftir að svör berist innan 21 dags.