Margir hafa tjáð sig ummálið að undanförnu og halda sumir því fram að betra sé að láta reyna á að samningarnir verði framlengdir í stað þess að fresta opnunarákvæðinu. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju segist á vefsíðu félagsins hafa fengið skýr skilaboð frá félagsmönnum Einingar-Iðju um framhaldið. „Við héldum nýlega fjölmennan fund á Hótel KEA þar sem fundarefnið var staða í kjara- og efnahagsmálum, framlenging á samningum SA og SGS og staðan vegna annarra samninga félagsins. Á fundinn voru boðaðir trúnaðarmenn, trúnaðarráðsmenn, svæðisfulltrúar og varamenn þeirra, stjórnir starfsgreinadeilda og samninganefnd félagsins," segir Björn. „Á fundinum fór fram hópavinna og bað ég fundarmenn um svör við tveimur spurningum í sambandi við samningamál félagsins. Óhætt er að segja að niðurstaðan hópavinnunnar hafi verið skýr. Um 85% töldu að rétt væri að fresta opnunarákvæðum kjarasamninga fremur en taka áhættuna á að verða samningslausir eftir. Það sé meiri líkur á að hægt sé að ná samningunum áfram í júní þar sem spáð er lækkandi stýrivöxtum og lækkandi verðbólgu.. Það er einnig alveg ljóst að menn mundu ekki sjá fram á nýjan samning á þessu ári. Einnig er þá búið að kjósa og þá er frekar hægt að reyna að hafa áhrif á stjórnvöld sem búið er að kjósa til fjögurra ár til hagsbóta fyrir heimilin. Þessi skilaboð félagsmanna fer ég ásamt varaformanni með í farteskinu á formannafundinn í dag."
Stundum þarf kjark til að hörfa
Björn bætir við og segir að auðvitað vildu allir fá þessa launahækkun sem kæmi ef samningarnir væru framlengdir. „Það á ekki síður við félagsmenn Einingar-Iðju heldur en þeirra félaga sem hafa sagt að við skulum láta reyna á það og láta slag standa hvort menn verða samningslausir eða ekki. En í því ástandi sem er í landinu í dag er rétt að fara varlega og reyna til þrauta að fá samningin framlengdan það tel ég meiri líkur á í júní heldur en núna í febrúar og þessari skoðun höfðu félagar mínir frá fundinum á KEA. Það er gott að félagsmenn hér austan við okkur skuli hafa svona góða stöðu til aðgerða ef samningarnir verða ekki framlengdir. Til að ná nýjum samningum þarf sterkar aðgerðir. Atvinnuástand er misvont á landinu það er allavega hörmulegt hér á Eyjafjarðarsvæðinu annaðhvort er fólk alfarið búið að missa vinnuna alveg eða er á hlutabótum. Það eru um 1.000 manns atvinnulausir á Akureyri í dag og fer hratt vaxandi. Að taka sénsinn í svona ástandi er ekki það sem ég við stuðla að heldur fresta og ná inn krónunum í vor og þá verður vonandi líka betra atvinnuástand. Stundum þarf kjark til að hörfa og stilla upp liðinu og hefja síðan sókn, þá taktík notum við hjá Einingu-Iðju og oft hefur hún gefist vel án þess að við séum alltaf að berja okkur á brjóst," segir Björn