Tekjur af skemmtiferðaskipum tæpar 50 milljónir á síðasta ári

Heildartekjur Hafnasamlags Norðurlands vegna komu skemmtiferðaskipa til Akureyrar á síðasta sumri, námu 48,2 milljónum króna og hafa aldrei verið hærri. Þetta er aukning í tekjum á milli ára, sem nemur tæplega 2 milljónum króna. Alls voru komur skemmtiferðaskipa til Akureyrar á síðasta ári 57 talsins og með þeim komu um 41.700 farþegar og um 19.000 áhafnameðlimir.  

Þetta eru heldur færri farþegar en komu til Akureyrar árin tvö á undan, árið 2006 komu ríflega 44.500 farþegar og árið 2007 voru þeir ríflega 43.400. Lang stærsti hluti farþega sem hingað kemur með skemmtiferðaskipum eru Þjóðverjar og Englengdingar. Á síðasta sumri komu hingað tæplega 15.700 Þjóðverjar og um 15.000 Englendingar. Bandarískir farþegar voru 3.230, franskir 1.293 og ítalskir 1.234.

Pétur Ólafsson skrifstofustjóri Hafnasamlags Norðurlands gerir ráð fyrir að farþegum eigi eftir að fjölga enn frekar. Þróunin sé í þá átt að hingað komi stærri skip með fleiri farþega. Ráðgert er komur skemmtiferðaskipa til Akureyrar verði 60 talsins næsta sumar og að farþegafjöldinn verði um 58.000  manns og fjöldi áhafnameðlima 27.000.  Árið 2010 er áætlað að til Akureyrar komi 60.000 farþegar með skemmtiferðaskipum og hátt í 30.000 áhafnameðlimir.

Nýjast