Tekjur af skemmtiferða- skipum gætu numið 100 milljónum króna

Reiknað er með að farþegum skemmtiferðaskipa fjölgi um 35% á árinu 2012.
Reiknað er með að farþegum skemmtiferðaskipa fjölgi um 35% á árinu 2012.

Gert er ráð fyrir því að hagnaður af rekstri Hafnasamlags Norðurlands verði rúmar 33 milljónir króna á næsta ári. Samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2012, er gert ráð fyrir fjárfestingum á hafnaáætlun fyrir um 46 milljónir króna og er þar um að ræða endurbyggingu á Ísbryggju ÚA og er hlutur HN í þeirri framkvæmd um 40 milljónir króna og síðan í Grímsey fyrir um 6,5 milljónir króna í  grjótvörn. 

Utan hafnaáætlunar er gert ráð fyrir fjárfestingum fyrir um 65,5 milljónir króna.  M.a. verður unnið við  verk á Grenivík, Grímsey, Hjalteyri, Hofsbót og fleira.  Varðandi viðhald þá verður unnið jöfnum höndum við það eftir því sem við á. Þetta kom fram í máli Geirs Kristins Aðalsteinssonar forseta bæjarstjórnar við fyrri umræðu um fjárhagsætlun Akureyrarbæjar 2012, á síðasta fundi bæjarstjórnar. “Rekstur Hafnasamlagsins hefur gengið ágætlega á þessu ári og verða tekjur umfram gjöld svipaðar og gert var ráð fyrir. Þó drógust tekjur vegna skemmtiferðaskipa saman frá fyrra ári um 6 milljónir króna.  Meginástæða þess samdráttar var að útgerð skipa með áætlaðar 5 komur fór í rekstrarstöðvun og sendi því skipin ekki til landsins. Útlit fyrir árið 2012 er aftur á móti mjög gott og gætu tekjur af skemmtiferðaskipum numið um 100 milljónum króna. Einnig má reikna með að fjölgun farþega á árinu 2012 verði um 35%.  Á árinu keypti Samherji rekstur Brims á Akureyri og hefur það þýtt töluvert meiri umsvif fyrirtækisins á hafnarsvæðinu,” sagði Geir.

Nýjast