Hverfisráð Grímseyjar mótmælir harðlega fyrirhuguðu banni á svartfuglsveiðum og óskar eftir stuðningi bæjastjórnar Akureyrar í því máli, þar sem heimamenn vita að stóraukning er á öllum þessum fuglategundum í eyjunni frá ári til árs. Hverfisráð telur þetta algera rökleysu og að Grímseyingar komi ekki til með að framfylgja þessu banni gangi það í gegn. Málið var á dagskrá bæjarráðs Akureyrar í morgun og tekur bæjarráð undir mótmæli hverfisráðs Grímseyjar, vegna fyrirhugaðs banns á svartfuglsveiðum næstu 5 árin. Jafnframt er skorað á umhverfisráðherra að taka tillit til sérstöðu Grímseyjar.
Einnig var fjallað um byggðakvóta á fundi hverfisnefndar í vikunni og eftirfarandi fært til bókar: Við erum afar ósátt við hvað byggðakvótinn til Grímseyinga er smánarlega lítill miðað við aðra staði á landinu og sjáum ekki hvers við eigum að gjalda í þeim málum. Er skoðun okkar sú að eitt eigi að ganga yfir alla.
Málið var einnig á dagskrá bæjarráðs Akureyrar í morgun og m.a. lagt fram til kynningarbréf frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þar sem tilkynnt er um úthlutaðan byggðakvóta fiskveiðiársins 2011/2012. Til Hríseyjar fara 102 þorskígildistonn en 15 þorskígildistonn til Grímseyjar. Bæjarráð tekur undir bókun hverfisráðs og lýsir vonbrigðum með hversu lítill byggðakvóti kemur í hlut Grímseyinga.