Táraðist þegar úrslitin lágu fyrir

Sigurður Þorri við hljóðnemann.
Sigurður Þorri við hljóðnemann.

"Valið kom mér mjög á óvart. Ég missti alveg "kúlið" og táraðist þegar úrslitin voru kunngjörð,“ segir Sigurður Þorri Gunnarsson frá Akureyri. Eins og Vikudagur greindi frá í morgun bar hann sigur úr býtum í bresku útvarpsverðlanunum British Public Radio Award í flokki stuttra heimildarþátta. 

Sigurður var tilnefndur fyrir tvo útvarpsþætti í flokknum en á annað hundrað þátta voru sendir inn. Fjórir voru tilnefndir, þar af báðir þættirnir hans Sigurðar. Vinningsþátturinn heitir A Place To Belong eða Staður sem maður tilheyrir.

„Ég er í skýjunum. Þetta opnar einhverjar dyr fyrir mig hérna úti og er mikil viðurkenning. Dómarinn sem dæmdi minn flokk hefur unnið á BBC í um 25 ár, meðal annars sem stjórnandi og hefur því séð margt í gegnum tíðina. Það kom mér því virkilega á óvart að honum skildi finnast flott það sem ég var að gera,“ segir Sigurður.

Vinningsþátturinn fjallar um kór hinsegin fólks í norð-austur Bretlandi en þar veltir Sigurður fyrir sér hvað dregur fólk saman í söng. Báðir þættirnir eru skólaverkefni hjá Sigurði sem stundar mastersnám í útvarpsfræðum í Sunderland í Englandi.

Fyrir áhugasama er hægt nálgast báða þættina hans Sigurðar á vefsíðu hans.

throstur@vikudagur.is

Nýjast