Neyðarlögin og afleiðingar þeirra setja mark sitt á afkomuna en félagið átti skuldabréf á hina föllnu banka. Enn er mikil óvissa um mat eignarhluta við þær aðstæður sem nú ríkja og staðan getur breyst frá degi til dags. Niðurfærsluþörf er miðuð við bestu fáanlegu upplýsingar sem liggja fyrir um stöðuna. Bókfært eigið fé er rúmlega 3,8 milljarðar króna um síðustu áramót. Félagið er nánast skuldlaust og á rúma 2 milljarða króna í lausu fé. Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri, segir þetta vissulega ekki góða niðurstöðu en á hitt beri að líta að flest sambærileg fyrirtæki eru ekki lengur til. "Þetta er staðan eins og við metum hana núna en eins og áður byggjum við reikningsskil okkar á mjög varfærinni nálgun við mat eigna. Við spiluðum þéttan varnarleik á síðasta ári og náðum að vernda lausafjárstöðuna að mestu leyti. Eins undarlega og það kann að hljóma er staða félagsins því nokkuð góð þrátt fyrir þær fjárhagslegu hamfarir sem nú ganga yfir fólk og fyrirtæki. Félagið hefur enn umtalsverða fjárfestingagetu og er með meirihluta af sínu eigin fé laust. Það eru ekki mörg fyrirtæki í þeirri stöðu í dag," segir Halldór á vef félagsins. Ársreikningur félagsins verður birtur síðar í þessum mánuði. Deildarfundur Akureyrardeildar KEA verður haldinn í kvöld, 6. apríl kl. 20:00 á Hótel KEA.