Fyrri hálfleikur í leik KA og ÍA var bragðdaufur og tilþrifalítill. Liðin skiptust á að vera með boltann en gekk illa að skapa sér ákjósanleg marktækifæri. Staðan markalaus í hálfleik.
Það lifnaði þó yfir leiknum í upphafi síðari hálfleiks. Guðmundur Óli Steingrímsson fékk fínt færi fyrir heimamenn á 49. mínútu leiksins þegar hann fékk stungusendingu inn fyrir vörn ÍA frá Dean Martin en skot hans fór framhjá marki gestanna. Gestirnir fóru að sækja í sig veðrið þegar líða tók á hálfleikinn og fengu nokkur ágætis færi en Sandor Matus í marki KA stóð vaktina vel.
Besta færi KA í leiknum kom á 76. mínútu og það fékk David Disztl er hann skallaði boltann í þverslána eftir sendingu fyrir markið. Disztl var svo aftur kominn í ákjósanlegt færi þremur mínútum síðar er hann fékk boltann fyrir lappirnar inn í teig gestanna, en var of lengi að athafna sig og missti boltann frá sér.
Það var svo þremur mínútum fyrir leikslok sem eina mark leiksins kom. Það skoraði Ólafur Valur Valdimarsson fyrir ÍA er hann fékk sendingu inn í teig heimamanna, lagði boltann fyrir sig og skoraði með fínu skoti framhjá Sandor Matus í marki KA.
Lokatölur á Akureyrarvelli 1-0 sigur Skagamanna, sem nældu sér með sigrinum í þrjú mikilvæg stig í fallbaráttu deildarinnar. KA menn hafa hinsvegar tapað tveimur leikjum í röð í deildinni og eru í fimmta sæti deildarinnar með 26 stig og Þór situr sjöunda sætinu með 24 stig.