Tap hjá KA í blakinu
Það gengur hvorki né rekur hjá KA í Mikasa-deild karla en liðið tapaði sínum þriðja leik í röð er liðið mætti HK í KA-heimilinu sl. helgi. HK vann allar þrjár hrinurnar örugglega, 25-16, 25-14 og 25-8 og þar með leikinn 3-0. Orri Þór Sigurðsson fór fyrir liði HK með 13 stig skoruð en hjá KA skoraði Sævar Karl Randversson 5 stig. Norðanmenn léku án Piotr Kempisty sem er meiddur og var það vandfyllt skarð í liði heimamanna. KA situr á botni deildarinnar án stiga eftir þrjá leiki, en liðið hefur ekki enn unnið hrinu á leiktíðinni. HK hefur unnið báða leiki sína og hefur fjögur stig í öðru sæti en Stjarnan vermir toppsætið með sjö stig eftir þrjá leiki.
KA og HK mættust einnig í Mikasa-deild kvenna í KA-heimilinu um helgina. HK vann fyrstu hrinuna örugglega, 25-14, en önnur hrinan var öllu meira spennandi en hún endaði 24-26, HK í vil. Gestirnir unnu síðan þriðju hrinuna sannfærandi, 25-13, og þar með leikinn 3-0. Fríða Sigurðardóttir var stigahæst í liði HK með 15 stig, en hjá KA var Auður Anna Jónsdóttir og Eva Sigurðardóttir stigahæstar með 6 stig hvor. HK er í efsta sæti deildarinnar með 12 stig eftir fjóra leiki en KA er í neðsta sæti án stiga eftir þrjá leiki.