Gunnar Gíslason fræðslustjóri segir að þetta tap hafi komið niður á rekstri skólanna að því leiti að þeir eru að bera hallann. Þeir hafi þó verið innan fjárhagsáætlunnar, bæði í fyrra og árið 2009, þrátt fyrir mikinn niðurskurð. "Skólarnir eru að taka þetta á sig eftir því sem kostur er en þeir gætu þó átt meiri afgang eða gert eitthvað annað fyrir þessa peninga."
Gunnar segir að til standi að skoða sameiginleg innkaup og þá bæði fyrir leik- og grunnskóla til að reyna að ná hráefniskostnaði niður. "Við vorum hins vegar inn í Ríkiskaupasamningi og við gátum ekki sagt okkur frá honum fyrr en hann var laus. Hann er laus núna og það er verið að vinna í þessum málum til þess að reyna takast á við hráefnisverð en ekkert síður til þess að nýta starfskraftana betur miðað við þann tíma sem fer innkaup. Við þurfum líka að horfa til gæða þess hráefnis sem við erum að taka inn í mötuneytin. Jafnframt erum við að vinna með næringarfræðingum í því að skoða matseðla og ætlum helst að byggja þá á annan hátt upp, m.a. með tilliti til upplýsinga um það hvað er raunverulega í matinn. Það hefur verið kvartað undan því að þeir séu ekki nógu lýsandi," segir Gunnar.
Árið 2009 var tap á rekstri skólamötuneytanna rúmlega 1,3 milljónir króna en árið 2010 nam tapið rúmum 12,8 miljónum króna. Munurinn á milli ára er um 11,5 milljónir króna. Samkvæmt yfirliti yfir rekstur skólamötuneyta í sex grunnskólum á Akureyri, Brekkuskóla, Oddeyrarskóla, Glerárskóla, Lundarskóla, Síðuskóla og Giljaskóla, kemur fram að tap varð á rekstri allra þeirra á síðasta ári. Árið 2009, var hins vegar hagnaður af rekstri skólamötuneytanna í Glerárskóla og Lundarskóla en taprekstur í hinum skólunum fjórum.
Verðið ekki hækkað í tvö ár
Gunnar bendir á að matarverðið hafi ekki hækkað í tvö ár en hallinn sé engu að síður meiri en menn ætluðu. Nýtingin hafi verið góð en hún sé betri hjá yngri nemendunum en þeim eldri. Flestir eru að kaupa máltíðina á 307 krónur með svokallaðri annaráskrift. Gunnar segir að í síðustu tveimur könnunum hafi komið fram að foreldrar séu ekki eins ánægðir með mötuneytin og annað í skólastarfinu. "Þar mætti gera betur og það er eitthvað sem við hljótum að horfa til og reyna að lagfæra."
Lundarskóli er fjölmennastur þessara sex skóla með 489 nemendur og Brekkuskóli er næst fjölmennastur með 462 nemendur. Þegar rekstur mötuneyta í þessum tveimur skólum er borin saman, kemur í ljós að fjöldi seldra máltíða í Brekkuskóla var 67.139 á síðasta ári en 60.915 í Lundarskóla. Kostnaður pr. máltíð er 417 krónur í Brekkuskóla en 368 krónur í Lundarskóla. Hráefniskostnaður í Brekkuskóla var tæpar 18,3 milljónir króna á síðasta ári og halli á rekstri mötuneytisins tæpar 4,4 milljónir króna. Hráefniskostnaður í Lundarskóla var rúmar 12,6 milljónir króna og tap á rekstri mötuneytisins rúmlega ein milljón króna.
Oddeyrarskóli er fámennastur þessara sex grunnskóla og þar var kostnaður pr. máltíð mestur á síðasta ári, eða 430 krónur. Tap á rekstri mötuneytisins í Oddeyrarskóla var rúmlega 1,8 milljónir króna. Gunnar segir að það hafi aldrei verið gert ráð fyrir því að mötuneyti Oddeyrarskóla stæði undir rekstri, vegna þess hversu líltil einingin er.
Samkvæmt yfirlitinu er reksturinn bestur á mötuneytinu í Glerárskóla. Kostnaður pr. máltíð á síðasta ári var 344 krónur, hráefniskostnaður nam um 12,3 milljónum króna og tap á rekstrinum á síðasta ári var rúmar 308 þúsund krónur. Kostnaður pr. máltíð í Síðuskóla á síðasta ári var 390 krónur og tap á rekstri mötuneytisins nam 2,8 milljónum króna. Kostnaður pr. máltíð í Giljaskóla var 394 krónur og tap á rekstri mötuneytisins nam 2,5 milljónum króna. Halli pr. máltíð er minnstur í Glerárskóla, eða 5 krónur en mestur í Oddeyrarskóla 68 krónur.