Talsverð fækkun gistinátta á tjaldsvæðunum á Akureyri
Hann segir að fækkun hafi orðið í öllum mánuðum sumarsins en mest í júní, þá fækkaði þeim um tæplega 4.800, í júlí nam fækkunin um 1.500 gistinóttum og í ágúst um 700. Gistinóttum Íslendinga fækkaði samtals um 10.500 en á móti kom fjölgun erlendra gesta um 3.100. „Þessa fækkun má trúlega rekja til kulda í byrjun sumars en við urðum einnig áþreifanlega vör við áhrif af háu eldsneytisverði. Vegna kalskemmda og bleytu var tjaldsvæðið við Þórunnarstræti ekki opnað fyrr en 21. júní sem er rúmlega tveimur vikum seinna en venjulega. Vegna aðgerða við að bæta úr skemmdunum og vegna þess að sumarið var hæfilega rakt þá náði grasið sér furðu vel en þó eru víða stórir blettir sem þarfnast frekari lagfæringa," segir Tryggvi.
Kalskemmdir urðu einnig umtalsverðar að Hömrum og var hluti svæðisins lokaður í mest allt sumar vegna þess og hlutar þess voru endurunnir.Tryggvi segir að það hafi þó ekki haft áhrif á tjaldgesti nema að litlu leyti, því nægjanlegt pláss hafi verið til staðar á Hömrum að öllu jöfnu.
Helstu framkvæmdir í sumar voru að sögn Tryggva tengdar rafmagnsmálum á báðum svæðunum en eftirspurn eftir því að tengjast rafmagni eykst ár frá ári en nú eru í boði hátt í 300 tenglar á tjaldsvæðunum. „Veigamesta breytingin á árinu er varðar rekstur tjaldsvæðanna er svo auðvitað að fá malbikaðan veg alla leið að Hömrum og mæltist sú framkvæmd vel fyrir hjá ferðamönnum og olli straumhvörfum í samgöngumálum svæðisins," segir hann.