Á Norðurlandi eystra eru 867 manns án atvinnu, 457 karlar og 410 konur. Á Akureyri eru 545 manns á atvinnuleysisskrá, 280 karlar og 265 konur. Að fullu án atvinnu eru 428. Í aldurshópnum 16-25 ára eru 110 án atvinnu, 99 á aldrinum 26-30 ára, 222 á aldrinum 31-55 ára og 114 á aldrinum 56-70 ár Í janúar árið 2011 var atvinnuleysi á Akureyri 8% og í desember var hlutfallið 6,4%. Á síðasta ári var mestur fjöldi atvinnulausra í aldurshópnum 20-29 ára. Á árinu 2011 voru 63% þeirra sem voru á ská búnir að vera án atvinnu í 0-6 mánuði, 13% í 6-12 mánuði og 24% í meira en ár. Vegna fjölda háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá er verið að vinna sérstaklega með þann hóp. Þetta kemur fram í fundargerð almannaheillanefndar frá því í síðustu viku.
Einnig kemur þar fram hjá skóladeild, að fylgst er með nýtingu leikskóla og Frístundar grunnskólanna eftir þær gjaldskrárhækkanir sem áttu sér stað um áramót. Engar stórar breytingar eru sjáanlegar ennþá. Mikill þrýstingur er frá foreldrum um aukna gæslu og lengingu tíma. Dagforeldrum hefur verið fjölgað til að mæta þörfinni en hætt er við að mikill fjöldi þeirra verði verkefnalaus þegar stór árgangur kemst á leikskóla. Vinnuhópur er að fara í gang um íþrótta- og tómstundaskóla sem yrði liður í heilsdagsskóla. Óþol, þreyta og álag er það sem helst er kvartað yfir í skólakerfinu. Þá kemur fram hjá lögreglu, að árinu 2011 fækkaði innbrotum og þjófnuðum frá því árið áður. Umferðarslysum fækkar milli ára sem og ölvunarakstri og umferðarlagabrotum. Akstur undir áhrifum fíkniefna jókst um 15-20% og fíkniefnamálum fjölgaði um 20%. Meira ber á e-töflum núna en áður.