Ráðstefnugestir heimsækja leikskóla og kynna sér starfsemi þeirra en hver gestur hefur valið tvo leikskóla af tólf til að heimsækja. Alls eru í boði tíu vinnusmiðjur á ráðstefnunni og hver gestur getur valið að taka þátt í tveimur. Vinnusmiðjustjórar koma frá Norðurlöndunum fimm, tvær vinnusmiðjur frá hverju landi. Ráðstefnan endar svo á hátíðarkvöldverði á föstudagskvöldinu og þá mun Akureyri kasta boltanum til Lahti en þar verður haldin norræn leikskólaráðstefna að ári.
Frá árinu 2000 hafa leikskólakennarar frá vinabæjunum fjórum, Akureyri, Randers í Danmörku, Ålesund í Noregi og Västerås í Svíþjóð haft með sér samstarf og fyrir ári síðan komu leikskólakennarar frá Lahti í Finnlandi inn í þetta samstarf. Meginfyrirkomulagið á þessu samstarfi er að tveir til þrír aðilar frá hverjum vinabæ mynda stýrihóp. Hópurinn hittist einu sinni á ári og hann sér um að halda utanum og skipuleggja samstarfið. Haldnar hafa verið ráðstefnur einu sinni á ári um málefni leikskólans og hafa löndin skipst á að halda þær. Akureyri er nú að halda sína þriðju norrænu leikskólaráðstefnu. Með þessu norræna leikskólasamstarfi hefur skapast vettvangur fyrir leikskólakennara að gerast gestakennarar á hinum Norðurlöndunum og dagana í kringum ráðstefnuna munu 20 norrænir leikskólakennarar taka þátt í leikskólastarfinu á Akureyri.