Tæplega 150 þátttakendur á norrænni leikskólaráðstefnu

Norræn leikskólaráðstefna er haldin í Menningarhúsinu Hofi í dag og á morgun. Að þessu sinni verður megin þema ráðstefnunnar "leikurinn". Á ráðstefnuna eru skráðir 143 þátttakendur, 119 frá hinum Norðurlöndunum og 24 Íslendingar. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar setur ráðstefnuna og Margrét Pála Ólafsdóttir framkvæmdarstjóri Hjallastefunnar flytur aðalfyrirlesturinn.  

Ráðstefnugestir heimsækja leikskóla og kynna sér starfsemi þeirra en hver gestur hefur valið tvo leikskóla af tólf til að heimsækja. Alls eru í boði tíu vinnusmiðjur á ráðstefnunni og hver gestur getur valið að taka þátt í tveimur. Vinnusmiðjustjórar koma frá Norðurlöndunum fimm, tvær vinnusmiðjur frá hverju landi. Ráðstefnan endar svo á hátíðarkvöldverði á föstudagskvöldinu og þá mun Akureyri kasta boltanum til Lahti en þar verður haldin norræn leikskólaráðstefna að ári.

Frá árinu 2000 hafa leikskólakennarar frá vinabæjunum fjórum, Akureyri, Randers í Danmörku, Ålesund í Noregi og Västerås í Svíþjóð haft með sér samstarf og fyrir ári síðan komu leikskólakennarar frá Lahti í Finnlandi inn í þetta samstarf. Meginfyrirkomulagið á þessu samstarfi er að tveir til  þrír  aðilar frá hverjum vinabæ mynda stýrihóp. Hópurinn hittist einu sinni á ári og hann sér um að halda utanum og skipuleggja samstarfið. Haldnar hafa verið ráðstefnur einu sinni á ári um málefni leikskólans og hafa löndin skipst á að halda þær. Akureyri er nú að halda sína þriðju norrænu leikskólaráðstefnu. Með þessu norræna leikskólasamstarfi hefur skapast vettvangur fyrir leikskólakennara að gerast gestakennarar á hinum Norðurlöndunum og dagana í kringum ráðstefnuna munu 20 norrænir leikskólakennarar taka þátt í leikskólastarfinu á Akureyri.

Nýjast