Alls komu 1189 fiskar úr Eyjafjarðará á liðnu ári, 780 bleikjur sem er aðeins meira en á árinu áður, 393 sjóbirtingar og 9 laxar. Aðalfundur Veiðifélags Eyjafjarðarár var haldinn í síðustu viku þar sem þetta kom fram. Ágúst Ásgrímsson i Kálfagerði, formaður Veiðifélags Eyjafjarðarár, segir að veiði hafi farið seint af stað á liðnu sumri sökum kulda og mikilla vatnavaxta, sem stóðu alveg framundir 20. júlí. Um miðjan júlí var til dæmis um það bil einum metra meira í ánni en vant er, segir hann.
Veiði fór svo loks vel af stað síðustu dagana í júlí, einkum á svæði 4 og eins sást mikið af bleikju á svæði 5 þegar veiði hófst þar 1. ágúst. Bleikjuveiði reyndist mest á svæði 4 þar sem náðust 355 bleikjur og 166 bleikjur veiddust á svæði 5. Veiði á sjóbirting fór af stað upp úr miðjum ágúst og var nær eingöngu á svæði 3 og svæði 2, en á síðarnefnda svæðinu dalaði veiði frá því sem var í fyrra. Seiðabúskapur árinnar er ennþá á uppleið, en hann varð í algjöru lágmarki eftir hamfarirnar miklu þegar Djúpadalsvirkjun gaf sig seint á árinu 2007.
Ágúst segir að minkaveiðiátak sem staðið hefur yfir á liðnum árum hafi haft gríðarlega mikið að segja, en nánast sé búið að útrýma mink á svæðinu. Menn verða að vera á verði gagnvart minknum, allar gildrur sem komið var fyrir þegar átakið stóð yfir eru enn til staðar og þær vaktaðar, segir Ágúst. Tæplega 1200 fiskar komu úr Eyjafjarðará í fyrrasumar og segir Ágúst að búist sé við að áin verði komin á gott ról árið 2016 hvað bleikjuna varðar, þrátt fyrir að loftslag fari hlýnandi.