Tæp hálf milljón ferðamanna á Norðurlandi í sumar

Ferðamenn eru farnir að streyma til Akureyrar. Mynd: Þröstur Ernir
Ferðamenn eru farnir að streyma til Akureyrar. Mynd: Þröstur Ernir

Ferðamannasumarið á Akureyri og nágrenni lítur vel út og er gert ráð fyrir stærsta sumri frá upphafi eða um 30% aukningu að sögn framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands.

Áætlað er að ferðamenn á svæðinu verði ríflega 400 þúsund og er það fyrir utan gesti skemmtiferðaskipa en búist er við að gestir skemmtiferðaskipanna verði hátt í 100 þúsund. „Sumarið hefur þegar byrjað vel og allt að fara í gang á flestum svæðum á Norðurlandi. Fólk er byrjað að fara í hvalaskoðun og ferðamenn eru sjáanlegir út um allt,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands í samtali við Vikudag.

Arnheiður segir ferðamenn vera óvenju snemma á ferðinni þetta árið. „Maí hefur oft verið erfiður og því er mjög jákvætt að þessi mánuður sé að taka við sér. Ferðatímabilið er alltaf að byrja fyrr enda hefur verið mikil áhersla lögð á það að auglýsa Ísland utan háannatíma og það er að skila sér.“ Arnheiður segir ýmsar nýjungar vera á svæðinu tengt ferðaþjónustu á Norðurlandi og þar megi t.d. nefna beinagrind af steypireið sem verður til sýnis á Hvalasafninu á Húsavík. „Það á eftir að vekja mikla athygli og einnig eru nýjungar í gistiplássi og verið að opna Hótel Laugabakka sem er 56 herbergja heilsárshótel. Það er gríðarlega góð viðbót fyrir svæðið. Þá er hvalaskoðun að vaxa gríðarlega og á Akureyri í sumar verða tveir nýjir stórir bátar og svo Rib-bátar til viðbótar,“ segir Arnheiður. /þev.

-Vikudagur, 19. maí

Nýjast