Tækifæri fyrir lífeyrissjóði að fjármagna gerð Vaðlaheiðarganga

Kristján Möller samgönguráðherra segir að engar formlegar ákvarðanir hafi verið teknar um frestun framkvæmda við Vaðlaheiðargöng.  Staða efnahagsmála sé hins vegar afar viðkvæm um þessar mundir og tími fyrir einkaframkvæmdir óheppilegur, lánsfjármagn af skornum skammti og það sé afar dýrt.   

"Það er ekki verið að hætta við þessa framkvæmd, en ljóst að einhver frestun verður á að verkefnið hefjist.  Það var kannski fullmikil bjartsýni að ætla að útboð gæti hafist um mánaðamótin nóvember-desember.  Fyrst þarf að fara í forval og dæmin sanna að það getur tekið nokkra mánuði að vinna í slíku," segir Kristján.

Hann segir að þó svo að ástandið sér afar ótryggt um þessar mundir, gætu líka legið í því tækifæri með framkvæmdir á borð við Vaðlaheiðargöng sem vinna á í einkaframkvæmd.  Hann nefnir í því sambandi lífeyrissjóði landsins, sem eigi mikið  fé og þurfi að ávaxta sínar krónur.  "Ég sé fyrir mér að þetta verkefni gæti verið kjörið fyrir lífeyrissjóði, þeir myndu fá af því pottþétta ávöxtun og góðan skuldara, þannig að ég vona að menn þar á bæjum skoði verkefni af þessu tagi og sjái tækifærin sem í þeim felast," segir samgönguráðherra.

Kristján segir það hafa verið fullmikla bjartsýni að nefna að útboð færi fram um þar næstu mánaðamót og ljóst hafi verið áður en áföll dundu yfir þjóðina á liðnum vikum að tafir hefðu orðið á því.  Nefndi hann að tafir hefðu orðið á afhendingu gagna frá Greiðri Leið til Vegagerðar vegna ágreinings um kaupverð þeirra og þegar í sumar hefði verið ljóst að lánsfjármagn var orðið afar dýrt.  Samgönguráðherra segir að mál séu í biðstöðu um þessar mundir og ítrekar að ekki hafi verið hætt við framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng, "þetta verkefni fer örugglega af stað af fullum krafti um leið og sést til sólar á ný," segir hann.

Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri segir þetta vissulega vonbrigði, en í ljósi aðstæðna sé það skiljanlegt, forsendur fyrir einkaframkvæmd voru brostnar, "en ég vona að verkefnið tefjist ekki lengi og hægt verði að hefjast handa strax og betur árar," segir hún.  Hugmyndin um að fjármagna framkvæmdir að hálfu með veggjöldum segir hún gera verkið eins hagkvæmt og kostur er."

Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri Eyþing segir það vissulega svekkjandi að tafir verði á að framkvæmdir hefjist en yfir mörgu sé hægt að svekkja sig um þessar mundir.  Hann sagði alla skilja að sú staða sem uppi er í efnahagsmálum hafi áhrif á þessa framkvæmd, en undirbúningsvinna gangi vel og um leið og rofaði til ætti að vera hægt að hefja framkvæmdir af fullum krafti.

Nýjast