Systrasýningu Jóhönnu og Drafnar lýkur um helgina
Jóhanna Friðfinnsdóttir (f. 03.09 1947) hóf feril sinn 1997 og stundaði nám í 3 ár í Listaskóla Arnar Inga, eitt ár í Helnæs-Kunstskole og eitt ár í Kunstskolen Brofogedvej í Kaupmannahöfn. Auk þess hefur hún lokið fjölda námskeiða í leir- og glerlist. Hún hefur haldið margar einkasýningar á Íslandi og einnig sýnt í Jónshúsi og á Frederiksbjerg í Danmörku. Síðustu 3 ár hefur Jóhanna aðallega lagt stund á leirlist undir handleiðslu Sigríðar Ágústsdóttur leirlistakonu á Akureyri og verkin sem sýnd eru í Ketilhúsinu er afrakstur þeirrar vinnu.
Dröfn Friðfinnsdóttir (f. 21.03 1946, d. 11.05 2000) stundaði nám við Handíða- og myndlistarskólann í Reykjavík, 1963, Myndlistarskólann á Akureyri, 1982-1986 og Lahti Art Institute, Finnlandi, 1987-1988. Dröfn hélt margar einkasýningar og tók þátt í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis. Fjölskylda Drafnar hefur valið verkin á sýninguna í Ketilhúsinu og eru það grafíkverk unnin í tré og dúk en það var sá miðill sem hún var þekktust fyrir og vann mest við sín síðustu ár. Öll verkin á sýningunni eru til sölu. Opið alla daga frá kl. 13 til 17.