Systrasýning Jóhönnu og Drafnar Friðfinnsdætra í Ketilhúsinu

Systrasýning þeirra Jóhönnu Friðfinnsdóttur og Drafnar Friðfinnsdóttur heitinnar, verður opnuð í Ketilhúsinu, Listagili á Listasumri laugardaginn 23. júlí kl. 14.00. Öll verkin á sýningunni verða til sölu en henni lýkur 7. ágúst og verður opin alla daga nema mánudaga frá kl. 13 til 17.  

Jóhanna Friðfinnsdóttir (f. 03.09 1947) hóf feril sinn 1997 og stundaði nám í 3 ár í Listaskóla Arnar Inga, eitt ár í Helnæs-Kunstskole og eitt ár í Kunstskolen Brofogedvej í Kaupmannahöfn. Auk þess hefur hún lokið fjölda námskeiða í leir- og glerlist. Hún hefur haldið margar einkasýningar á Íslandi og einnig sýnt í Jónshúsi og á Frederiksbjerg í Danmörku. Síðustu 3 ár hefur Jóhanna aðallega lagt stund á leirlist undir handleiðslu Sigríðar Ágústsdóttur leirlistakonu á Akureyri og verkin sem sýnd eru í Ketilhúsinu er afrakstur þeirrar vinnu.

Dröfn Friðfinnsdóttir (f. 21.03 1946, d. 11.05 2000) stundaði nám við Handíða- og myndlistarskólann í Reykjavík, 1963, Myndlistarskólann á Akureyri, 1982-1986 og Lahti Art Institute, Finnlandi, 1987-1988. Dröfn hélt margar einkasýningar og tók þátt í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis. Fjölskylda Drafnar hefur valið verkin á sýninguna í Ketilhúsinu og eru það grafíkverk unnin í tré og dúk en það var sá miðill sem hún var þekktust fyrir og vann mest við sín síðustu ár.

Nýjast