Sýnir og selur ljósmyndir -styrkir smíði á risakúnni Eddu

Hólmgeir Karlsson sýnir ljósmyndir á kaffihúsinu Brúnum í Eyjafjarðarsveit. Myndirnar eru til sölu o…
Hólmgeir Karlsson sýnir ljósmyndir á kaffihúsinu Brúnum í Eyjafjarðarsveit. Myndirnar eru til sölu og fer andvirðið í að styrkja verkefni sem snýst um að smíða nýtt kennileiti fyrir sveitarfélagið, risakúna Eddu.

„Þeirri hugmynd laust niður í kollinn á mér að halda sýningu á ljósmyndum mínum, bjóða þær til sölu og nota innkomuna til að styrka smíði á risakúnni Eddu, „ segir Hólmgeir Karlsson sem sýnir ljósmyndir í sýningarsal og á kaffihúsinu Brúnum í Eyfjarðarsveit. Seinni sýningarhelgin er nú um helgina, opið í dag, laugardag frá kl. 14 til 18 og á morgun, sunnudag frá 14 til 17.

 

Ljósmyndun hefur verið áhugamál Hólmgeir frá unga aldri og hefur hann lengi gælt við að halda sýningu á myndum sínum. „Ég hef aldrei haft löngun til að selja myndirnar mínar eða  fá pening fyrir þær, mér finnst svo mikið frelsi fólgið í því að eiga ljósmyndun fyrir áhugamál. Frelsið sem fylgir því að ekkert reki mann áfram nema gleðin við að taka góða mynd er mér svo dýrmætt,“ segir Hólmgeir.

 

Nýtt kennileiti í Eyjafjarðarsveit

 

Um skeið hefur verið unnið að því að útbúa risakýr, Eddu og koma fyrir sem nýju kennileiti í einu helsta mjólkurframleiðsluhéraði landsins. Hólmgeir segir fjármögnun verksins byggja á því að takist að safna fyrir smíðinni. „Mér fannst söfnunin ekki ganga nógu hratt og að hana vantaði athygli, þá fékk ég þessa hugmynd að halda sýningu, selja myndir og láta söluandvirði renna óskert til styrktar smíði á Eddu,“ segir Hólmgeir sem ámálgaði hugmyndina við Hugrúnu Hjörleifsdóttur og Einar Gíslason á Brúnum. „Þau tóku mér strax opnum örmum, lögðu til sýningarsalinn og hjálpuðu mér að láta hugmyndina verða að veruleika.“  Safnast hafa um 3,2 milljónir króna en áætlaður kostnaður við verkefnið er um 5 milljónir króna.

 

Sýningin var opnuð um liðna helgi, en Hólmgeir lagði til 113 myndir í allt og hengdi í fyrstu upp 77 myndir bæði í sýningarsal og í kaffihúsi. Fyrstu helgina seldust 52 myndir og eru þær teknar niður um leið og þær seljast og nýjar settar upp þeirra í stað.

 

 


Athugasemdir

Nýjast