Sýningin MATUR-INN í Íþróttahöllinni um næstu helgi

Líkt og áður verður bæði margt að sjá í básum, margt gómsætt að smakka á.
Líkt og áður verður bæði margt að sjá í básum, margt gómsætt að smakka á.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkti á síðasta fundi sínum að styrkja sýninguna MATUR-INN 2011, sem haldin verður í Íþróttahöllinni um næstu helgi, um kr. 200.000. Í bókun stjórnar Akureyrarstofu kemur fram að sýningin endurspegli norðlenska matarmenningu í víðum skilningi og telur stjórnin mikilvægt að sem flestir hafi tækifæri á að kynna sér hana. Í ljósi þess að ekki verður tekinn aðgangseyrir inn á sýninguna samþykkti stjórnin að styrkja verkefnið.

Í erindi frá fulltrúa sýningarinnar var óskað eftir eftir því að stjórn Akureyrarstofu styrkti sýninguna vegna húsaleigu í Íþróttahöllinni, eða um kr. 460.000. Undirbúningur sýningarinnar hefur gengið vel og er þátttakan góð. Á sýninguna árið 2009 komu yfir 12 þúsund manns og er áætlað að aðsóknin verði ekki minni í ár. Sýningin stendur yfir dagana 1. og 2. október. Sýningin MATUR-INN hefur vaxið jafnt og þétt en hún var fyrst haldin samhliða matreiðslukeppnum í Verkmenntaskólanum árið 2003. Síðan var hún endurtekin í sama húsnæði árin 2005 og 2007 en þá var ljóst að húsnæðið annaði engan veginn þörf. Sýningin var þá færð yfir í Íþróttahöllina árið 2009 og verður því þar í annað sinn og verður stærri en nokkru sinni fyrr. Bæði eru sýnendur fleiri en árið 2009 og fleiri fermetrar í sýningarbásum og sýningarrými. Líkt og áður verður bæði margt að sjá í básum, margt gómsætt að smakka á og ýmsir skemmtilegir viðburðir á sýningarsvæðinu.

Nýjast