Sýningin MATUR-INN 2011 í Íþróttahöllinni um helgina

Búist er við þúsundum gesta á sýninguna.
Búist er við þúsundum gesta á sýninguna.

Sýningin MATUR-INN verður haldin á Akureyri í fimmta sinn í dag laugardag og á morgun sunnudag. Sýningin hefur verið haldin á tveggja ára fresti og var hún síðast haldin árið 2009. Þá voru gestir 12-14 þúsund og er búist við öðru eins í ár. Sýningarbásar eru fleiri en á síðustu sýningu og sýningasvæðið enn stærra.

Sem fyrr er aðgangur ókeypis og undirstrikað að um er að ræða sölusýningu og því hægt er að gera góð kaup hjá sýnendum. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, mun opna sýninguna formlega en hún verður opin frá kl. 11-17 í dag og á morgun. Óhætt er að segja að MATUR-INN 2011 sé hápunktur í norðlenskri matarmenningu. Sýningin er haldin af félaginu Mat úr Eyjafirði í góðu samstarfi við Þingeyska matarbúrið og Matarkistuna Skagafjörð. Að baki þessum félögum standa matvælaframleiðendur stórir sem smáir, veitingaaðilar, ferðaþjónustufyrirtæki, verslanir- og þjónustufyrirtæki - allt aðilar sem eiga það sammerkt að matur kemur við sögu í þeirra starfi. Á fjórða tug aðila tekur þátt í sýningunni MATUR-INN 2011 og verður fjölbreytni mikil.

Matreiðslukeppnir og haustmarkaður

Keppt verður í matreiðslu á eldhússvæði sýningarinnar. Til að mynda munu þjóðþekktir einstaklingar spreyta sig á laxaréttum, matreiðslumenn munu keppa um besta makrílréttinn, bakarar glíma við eftirrétti og loks munu veitingahús keppa í flatbökugerð. Á sýningunni verða sýningarbásar fyrirtækja og matarmenningarfélaga, markaðstorg þar sem t.d. hægt verður að kaupa ferska haustuppskeru og sultur margs konar.

Samhliða sýningunni verður húsbúnaðarsýning í anddyri Íþróttahallarinnar og í dag verður kveikt upp í risagrilli útifyrir þar sem hefst sólarhringsgrillun á nautsskrokk. Hann verður síðan tilbúinn á morgun og gefst þá gestum tækifæri til að bragða á herlegheitunum. Á morgun verða einnig afhent frumkvöðlaverðlaun félagsins Matar úr Eyjafirði en þau hafa verið fastur liður á sýningum félagsins hingað til. Í tilefni af sýningunni verða átta veitingahús á Akureyri með sérréttamatseðil þessa viku þar sem þau útfæra hvert með sínum hætti hráefni úr héraði. Þannig má segja að matur og matarævintýri verði þema Eyjafjarðar og Norðurlands alla þessa viku og nái hápunkti um helgina.

Nýjast