Sýningin Friðland fuglanna opnuð í Svarfaðardal
Við gerð sýninagrinnar var ákveðið að fara ekki með hina hefðbundnu leið með uppstoppaða fugla í skápum heldur nýta safnkostinn til að segja sögur af fuglum og öllu því stórmerkilega, skrýtna og skondna sem veröld fuglanna býr yfir. Sýningargestir eru ekki einungis hlutlausir áhorfendur heldur virkir þáttakendur. Í grunnin byggir sýningin á bók Guðmundar Páls Ólafssonar „Fuglar í náttúru Íslands"
„Við tökum ekki allt of hátíðlega hina klassísku vísindalegu flokkunarfæði sem hefur verið leiðarstef í náttúrusýningum fram til þessa". segir Hjörleifur Hjartarson forstöðumaður Náttúrusetursins. „Við leggjum að jöfnu eðlisfræðina og náttúrufræðina sem og þjóðsögurnar, skáldskapinn og þjóðtrúna í kringum fuglana. Þetta er skemmtileg sýning og jafnvel fyndin á köflum. Hver ákvað annars að menn ættu að vera alvarlegir á náttúrusýningum? Það er alveg óhætt nað hlæja á þessari sýningu. Hin vísindalega þekking og upplýsingarnar um fuglana er vissulega til staðar en í gegn um leikinn og skemmtilegheitin verða þær eftirminnilegri."
Uppstoppaðir fuglar skipa veigamikinn sess á sýningunni en þeir standa jafnan fyrir eitthvað meira en bara sitt eigið nafn. Þeir eru fulltrúar einhverra eiginleika, staðreynda eða jafvel hindurvitna. Sagðar eru sögur af fuglum. Þetta geta verið sögur af vísindarannsóknum eða þjóðsögur eða jafnvel fréttir úr fjölmiðlum. Svo eru þarna ýmis skemmtilegheit til að fást við, það sem á útlensku kallast „hands on" munir. Hægt er að gera einfaldar tilraunir sem útskýra eðlisfræði flugsins eða hvernig mismunandi lögun á eggjum eða fuglsgoggum hentar mismunandi aðstæðum og lifnaðarháttum. Þarna er líka hægt að fylgjast nokkuð með tilhugalífi fugla á skjám og svo eru ýmis smáatriði sérstaklega ætluð yngstu kynslóðinni Sem dæmi um atriði má nefna íslensku hænuna sem sett er á stall fyrir það að verpa fugla mest. Góð varphæna verpir 270 eggjum á ári og því er ársframleiðslunni stillt upp í eggjabikurum af öllum gerðum aftan við hana. Aðstandendur sýningarinnar hafa því lýst eftir eggjabikurum af öllum gerðum og eru þegar komnir með nokkuð gott safn. Sýningin verður opin alla daga í sumar frá kl. 12-18.