Sýning um sýningarnar á Listasafninu á Akureyri opnuð

Um áramótin verða þáttaskil í sögu Listagilsins á Akureyri þegar ný menningarmiðstöð á sviði sjónlista tekur til starfa. Ákveðið hefur verið að sameina Listasafnið á Akureyri og Menningarmiðstöðina í Grófargili, sem m.a. hefur haft umsjón með Ketilhúsi og Deiglunni, í eina stofnun sem fengið hefur nafnið Sjónlistamiðstöðin.

Framvegis verður vísað til Listasafnsins eða Ketilhúss í Sjónlistamiðstöðinni eftir því hvar viðburðirnir eiga sér stað og mun miðstöðin heyra undir Akureyrarbæ.  Af þessu tilefni verður litið yfir farinn veg hjá Listasafninu á viðburðaríkum áratug 21. aldar til að draga upp heildstæða mynd af starfseminni á umræddu tímabili. Þessi upprifjun samanstendur af plakötum, upplýsingum um sýningarnar, marvíslegum viðbrögðum við þeim úr fjölmiðlum og útgefnu efni safnsins, en alls eru (sjálfstæðar) sýningar orðnar 95 talsins. Þá gefst gestum kostur á að eignast ókeypis margar bækur og sýningarskrár frá liðinni tíð meðan birgðir endast. Þessi sýning um sýningarnar verður opnuð laugardaginn 5. nóvember kl. 12 og stendur út mánuðinn, eða til sunnudagsins 4. desember. Aðgangur í Listasafnið á Akureyri er ókeypis eins og verið hefur frá haustinu 2008.

Í framhaldinu verður efnt til málþings um stöðu og framtíðarhorfur í Listagilinu sem fram fer í Ketilhúsi laugardaginn 19. nóvember og hefst það kl. 12. Reykvíski myndistarmaðurinn og heimspekingurinn dr. Hlynur Helgason mun í byrjun fjalla um hvernig sýningarhald Listasafnsins kemur honum fyrir sjónir, sérstöðu þess og áhrif í víðara samhengi safnaflórunnar og velta fyrir sér hvernig málin gætu þróast með tilkomu Sjónlistamiðstöðvarinnar. Að því loknu hefjast almennar umræður. Ekki verður um nein önnur framsöguerindi að ræða heldur boðið upp í hringborðsumræður til að hvetja sem flesta að láta í sér heyra. Fundarstjóri verður Hulda Sif Hermannsdóttir, verkefnastjóri Akureyrarstofu. Listasafnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17.

Nýjast