Maðurinn var hins vegar sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslu á heimili sínu tæp 2 grömm af kókaíni sem lögregla fann við húsleit. Maðurinn var stöðvaður við umferðareftirlit lögreglu að næturlagi skammt norðan Akureyrar. Fíkniefnaleitarhundur fann greinilega lykt á gólfi framan við farþegasæti, en ekkert fannst í bílnum. Tveimur dögum síðar kom starfsmaður Vegagerðar til lögreglu með Hagkaupspoka sem hann kvaðst hafa fundið við eftirlit hjá Syðri-Bægisá. Í honum var taska merkt Latabæ hvar í var ilmkerti og brúnt hart efni vafið í plastfilmu. Reyndist það vera tæp 600 grömm af hassi.
Maðurinn sem ákærður var í málinu reyndist hafa keypt samskonar Latabæjartösku í Hagkaup í Grafarvogi um kl. hálf tíu að kvöldi sem og einnig ilmkerti. Hann neitaði sök í málinu og kvaðst hafa stöðvað við nokkrar verslanir í höfuðborginni áður en hann ók norður, skilið bíl sinn eftir opinn og í gangi í öll skiptin. Taldi hann hugsanlegt að einhver hefði tekið pokann úr sætinu þegar hann brá sér út. Ekkert hvarf annað úr bifreiðinni enda að sögn mannsins ekki annað fémætt þar að finna.
Dómari segir ágreiningslaust að maðurinn hafi keypt samskonar Latabæjartösku og ilmkerti og fundust við þjóðveginn í Öxnadal áður en lagt var upp í norðurför. Þá liggi einnig fyrir að fíkniefnahundur lögreglu sýndi mikinn áhuga á tilteknu svæði í bifreið hans. Þá álítur hann hafið yfir skynsamlegan vafa að taskan og kertið sem fundust í Hagkaupspoka í Öxnadal séu þau sömu og maðurinn keypti í Reykjavík skömmu áður, en maðurinn var sá eini sem keypti þessa tvö vöruflokka í versluninni á þessum tíma. Dómari þótti afar ólíklegt að annar maður hafi um svipað leyti á leið um Öxnadal með samskonar vörur og poka, að óhætt sé að slá því föstu að um poka hins ákærða hafi verið að ræða. Þrátt fyrir að nokkur ólíkindablær sé á þeirri skýringu að ókunnur maður hafi stolið pokanum þegar ákærði brá sér út úr bíl sínum áður en hann ók norður, þótti dómara ekki unnt að hafna henni sem útilokaðri og túlkaði vafa sem á skýringunni lék ákærða í hag.