Svört atvinnustarfsemi er böl sem þrífst í öllum starfsgreinum
Nú eru 10 faglærðir smiðir á atvinnuleysisskrá og þar af séu 4 að störfum í sérstökum átaksverkefnum sem standa yfir í ákveðinn tíma. Umræður hafa verið í bænum um að erfiðlega gangi að fá smiði til starfa og að töluvert sé um svarta atvinnustarfsemi í þessum geira. „Ég heyri þennan orðróm jafn oft og mikið og aðrir, sögur um að ekki sé hægt að fá smiði til starfa því þeir séu svo uppteknir við annað. Vel má vera að í einhverjum tilvikum eigi það við, en kjósi byggingaverktakar að fá nöfn þeirra sem eru á skrá séu þeir að leita að starfsmönnum þá fá þeir þessi nöfn, hjá okkur eða Vinnumálastofnun. Ég veit til þess að vinnuveitendur hafa ekki í öllum tilvikum falast eftir þessum upplýsingum," segir Heimir.
Hann segir að eftir hrun hafi þó nokkur fjöldi smiða úr bænum leitað eftir atvinnu í útlöndum og viti hann til þess að marga langi að koma til starfa á heimaslóðum. „Ef til vill er að skapast tækifæri fyrir þessa menn að koma heim núna," segir Heimir. Hann segir að svört atvinnustarfsemi þrífist í öllum starfsgreinum og hafi gert, byggingaiðnaði líka. „Þetta er mjög slæmt fyrir samfélag sem er að ná sér upp úr kreppu. Starfsemi af þessu tagi grefur undan starfsskilyrðum þeirra fyrirtækja sem hún er í samkeppni við og er á allan hátt mjög neikvæð. Þetta er böl," segir Heimir. Hann bendir á að þó svo að mikil umræða sé um málið nú hafi hann á tilfinningunni að ekki hafi verið minna um svarta atvinnustarfsemi á góðæristímanum fyrir hrun, en andrúmsloftið í samfélaginu hafi þá verið annað en nú.
Allar ábendingar kannaðar
Soffía Gísladóttir framkvæmdastjóri Vinnumálastofnunar á Akureyri segir að fyrir liggi á stofnuninni nöfn þeirra sem eru á skrá og þangað geti vinnuveitendur leitað ef þeir eru að falast eftir starfsfólki. Í sumum tilvikum sé það elsta starfsfólkið í hverri grein sem sé á atvinnuleysisskrá og margir vilji síður ráða það til vinnu. „Svo er líka til í dæminu að þeir sem eru að ráða starfsfólk leita ekki til okkar, það er allur gangur á þessu," segir Soffía.
Hún bendir á að á vefsvæði Vinnumálastofnunar sé hnappur þar sem fólk geti komið á framfæri ábendingum um svarta atvinnustarfsemi og mikið séu um að almenningur sendi inn slíkar ábendingar. Eftirlitið sé virkt og allar ábendingar sem berast eru kannaðar að hennar sögn. Vinnustaðaskilríki sem tekin voru í notkun fyrr á árinu séu líka til bóta og bæði fulltrúar frá stréttarfélögum og skattinum hafi farið á vinnustaði og kallað eftir þessum skírteinum og sjái þannig hvort allir starfsmenn séu skráðir hjá fyrirtækinu.