Svokölluð 5%-leið er skammtíma- lausn sem hefur kosti og galla

 

Svokölluð 5%-leið, þ.e. lækkun launa og frídagur á móti, er skammtímalausn, sem hefur bæði kosti og galla, og gengur ekki miðað við óbreyttar aðstæður án samninga við hvern og einn starfsmann af fúsum og frjálsum vilja. Bregðast þurfi við til lengri tíma - menn standa frammi fyrir því að fækka stöðugildum í sveitarfélögunum. Þetta var á meðal þess sem fram kom í umræðum, á samráðsfundi sveitarfélaga, um rekstrarvanda sveitarfélaga og leiðir til lausnar.

Fundinn sátu um 80 manns, fulltrúar sveitarfélaga, starfsmenn sambandsins og nokkrir gestir. Framsögumenn á fundinum voru Halldór Halldórsson, formaður sambandsins, og Gunnlaugur A. Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins. Í upphafi máls síns gerði Halldór Halldórsson grein fyrir markmiðum fundarins. Fundurinn væri haldinn til þess að miðla upplýsingum og stilla saman strengi sveitarstjórnarmanna vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem við er að fást í rekstri sveitarfélaganna. Þess væri vænst að fundurinn nýttist sveitarstjórnum um allt land og leiddi til þess að aðgerðir sveitarstjórnanna yrðu eins samræmdar og mögulegt væri. Í almennum umræðum tóku fjölmargir forsvarsmenn sveitarfélaga til máls. Flestir ræðumanna lýstu stöðu sinna sveitarfélaga og gáfu dæmi um hagræðingaraðgerðir sem gripið hefur verið til á undanförnum vikum og mánuðum til að bregðast við þeim fjárhagsvanda sem sveitarfélögin standa frammi fyrir.

Meginatriðin í máli ræðumanna voru þessi:

  • Kreppan er ekki tímabundin, hefðbundin íslensk lægð heldur langvarandi heimskreppa.
  • Varað var við samfélagslegum áhrifum sparnaðarraðgerða og hækkun skatta og þjónustugjalda.
  • Svokölluð 5%-leið, þ.e. lækkun launa og frídagur á móti, er skammtímalausn, sem hefur bæði kosti og galla, og gengur ekki miðað við óbreyttar aðstæður án samninga við hvern og einn starfsmann af fúsum og frjálsum vilja.
  • Bregðast þarf við til lengri tíma - menn standa frammi fyrir því að fækka stöðugildum í sveitarfélögunum.
  • Mörg sveitarfélög hafa þegar ákveðið að draga úr þjónustu og endurskoða gjaldskrár. Nefnd var stytting opnunartíma leikskóla og íþróttahúsa.
  • Fram kom að sveitarfélögin eru komin lengra en ríkið í raunverulegum niðurskurði og hagræðingaraðgerðum.
  • Mikilvægt að vextir lækki og verðbólga hjaðni.
  • Nýtt fasteignamat verður birt í maí 2009 og sveitarfélög geta þurft að samræma viðbrögð ef það lækkar mjög mikið.
  • Hvatt var til átaksverkefna í umhverfismálum í samvinnu við Vinnumála-stofnun til þess að fækka atvinnulausum.
  • Fara þarf ofan í kjölinn á skipulagi og framkvæmd fræðslumála sem er útgjaldafrekasta verkefni sveitarfélaganna.
  • Mikilvægt að sveitarfélögin standi saman og séu samstíga í þeim aðgerðum sem grípa þarf til.
  • Sveitarstjórnarmennirnir verða líka að vera samstíga innan hvers sveitarfélags og láta af pólitísku karpi meðan tekist er á við mesta vanda sem sveitarstjórnir í landinu hafa staðið frammi fyrir.
  • Vinna þarf að þjóðarsátt um velferðarþjónustuna.
  • Nauðsynlegt að upplýsa íbúana og starfsmenn sveitarfélaganna um stöðu mála og þær aðgerðir sem eru í umræðunni.
  • Nauðsynlegt að vinna með stéttarfélögunum, en stéttarfélögin geta þó ekki ráðið þeim aðgerðum sem grípa þarf til.
  • Endurskoða þarf kjarasamninga við kennara og skólastjórnendur þannig að skipulag skólastarfs sé ekki njörvað niður í samningi aðila um laun og kjör.
  • Hagræðingaraðgerðir hafa yfirleitt tekist vel og án deilna við stéttarfélög.
  • Mikil kaupmáttarrýrnun hjá launafólki gerir kjarasamninga erfiða, en einstakt er að allir aðilar á vinnumarkaði vinni að gerð stöðugleikasáttmála.
  • Sambandið ætti að útbúa aðgerðarpakka fyrir samráðsviku sveitarstjórnar-manna og íbúa.
  • Stjórn sambandsins á að láta meira að sér kveða í umræðu um aukna framleiðslu í landinu, fjölgun starfa og breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Í lok fundarins tók Halldór Halldórsson saman umræðuna og áréttaði hvatningu margra þeirra sem tóku til máls um mikilvægi samstöðu sveitarstjórnarmanna á þeim óvenjulegu tímum sem þjóðin gengur nú í gegnum. Hann tók undir það, að svonefnd 5%-leið væri ekki langtímalausn á fjárhagsvanda sveitarfélaga en hún gæti verið hentug skammtímalausn á meðan sveitarfélögin skoða leiðir til endurskipulagningar á þjónustu sinni í samráði við ríki og stéttarfélög. Hann nefndi einnig að Lánasjóður sveitarfélaga yrði áfram mikilvægur fyrir sveitarfélögin en á þessu stigi væri ekki þörf á því að sjóðurinn endurskoðaði útlánaáætlun sína. Loks hvatti formaðurinn þá sem fylgdust með fundinum í útsendingu á veraldarvefnum til að láta starfsmenn sambandsins vita hvernig til tókst. Full ástæða sé til að skoða hvort framhald verði á þeirri nýbreytni.

Nýjast