Svik fara ekki í sumarfrí

Heiðrún E. Jónsdóttir skrifar
Heiðrún E. Jónsdóttir skrifar

Það er ekkert nýtt að óprúttnir aðilar svindli  á meðborgurum sínum. Það á ekki síst við þegar kemur að fjármálum og höfum við í Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu reglulega varað við glæpamönnum. Í dag eru þetta oft alþjóðlegir, skipulagðir glæpahringir, sem beita tækninni til að villa um fyrir fólki. Íslenskan þeirra verður betri og aðferðir þeirra betur úthugsaðar og erfiðara að verjast þeim.

Ekkert sumarfrí hjá fjárglæframönnum

Nú er sumarið að nálgast og á þeim árstíma fara svikin ekki í sumarfríi og oft sýnum við þá minni aðgæslu. Það er almennt mannkostur að treysta fólki og trúa því góða. En er kemur að fjármálum og svikum þá er það heilsteypt og heiðarleg tortryggni, og gagnrýnin hugsun, sem getur komið í veg fyrir fjárhagslegt tap og svekkelsi.

Rafræn skilríki

Sérstaklega ber að fara varlega með rafrænu skilríkin. Með því að opna þau þá má líkja saman að þú hafir boðið glæpamönnum heim og veskið þitt á stofuborðinu. Svik þar sem farið er inn í rafræn skilríki verða sífellt algengari, þróaðri og bífræfnari. Þetta getur farið fram með sms færslum, messanger skilaboðum – þar sem skilaboð virðast t.d. vera frá fjölskyldumeðlimi sem biður þig að opna rafrænu skilríkin. Það er full ástæða til að vera sérstaklega tortrygginn að öllu sem snýr að rafrænum skilríkjum.

Er tilboðið of gott til að vera satt?

Þá eru einfaldlega meiri líkur en minni að það sé einfaldlega svo, of gott til að vera satt. Ekki sitja uppi með sárt ennið.

Almenn aðgæsla til að verjast svikum

  • Fylgist vel með kortafærslum. Þessa dagana er meira um kortasvik en oft áður, þ.e. kort sem hafa verið notuð á ákveðnum síðum verða misnotuð í kjölfarið. Hægt er að frysta kort í símaappi og affrysta. Það getur verið góður vani að hafa þau kort sem ekki eru í almennri notkun einfaldlega fryst.
  • Ekki gefa neinum bankaupplýsingar nema í tilgreindum viðskiptum og á traustum síðum. Gefið aldrei upp lykilorð/pin.
  • Varasamir hlekkir sem sendir eru í sms eða skilaboðum, ekki opna þá nema þú vitir að þeir eiga við.
  • Ekki senda peninga til aðila sem þið hafið kynnst á netinu. Beðið er um lítið lán í byrjun, svo sem til að borga sjúkrakostnað eða jafnvel farseðil til Íslands. Iðulega er um falskar persónur að ræða sem eru kunna að byggja upp traust og geta virkað afar trúverðugir. Fjárglæframenn eru vissulega fremur vinalegir og góðir í að tala fólk til.

Hvað er til ráða?

Bregðist tafarlaust við.  Leitið til bankans ykkar til að upplýsa um svik/svikatilraunir eða loka fyrir kort, hafa samband við cert.is og lögreglu.


Athugasemdir

Nýjast