Svifryksmælar hafa verið meira og minna bilaðir í allan vetur

Á síðasta fundi umhverfisnefndar Akureyrarbæjar var lögð fram fyrirspurn frá Andreu Sigrúnu Hjálmsdóttur bæjarfulltrúa V-lista. Fram kom í stefnuræðu formanns umhverfisnefndar sem flutt var á fundi bæjarstjórnar í byrjun mánaðarins að svifryksmælar í bænum hafi verið meira og minna bilaðir í allan vetur. Þrátt fyrir það hafa tölur um svifryk verið birtar á heimasíðu bæjarins í vetur.  

Vinstri hreyfingin grænt framboð óskar því eftir upplýsingum um hvaðan þær tölur sem birtust á meðan mælarnir voru bilaðir komu og hvers vegna íbúum bæjarins var ekki kynnt að mælarnir væru bilaðir. Í bókun umhverfisnefndar kemur fram að nefndin harmar að mannleg mistök hafi leitt til þess að rangar upplýsingar hafi birst á svifryksmælum á heimasíðu Akureyrarbæjar og ítrekar að slíkt skuli ekki gerast aftur. Umhverfisnefnd bendir einnig á að mikilvægt sé að birta réttar upplýsingar um svifryksmengun á vef Akureyrarbæjar þar sem margir treysti á að þær upplýsingar séu réttar.

Nýjast