Svifryk ekki farið yfir heilsuverndarmörk

„Við erum enn með mælana í tilraunakeyrslu," segir Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun um tvo nýja færanlega svifryksmæla sem settir voru upp á Akureyri í liðinni viku. Annar er við hlið eldri mælis við gatnamót Glerárgötu og Tryggvabrautar, en hinum var komið fyrir efst á Þingvallastræti á móts við leikskólann Flúðir.   

Þar verður hann hafður í einn til tvo mánuði. Uppsetning svifryksmælanna gekk vel að sögn Þorsteins.  Hann segir að um næstu mánaðamót megi búast við að þeir verði tengdir vef Akureyrarbæjar og geta áhugasamir þá fylgst með svifryksmengun í bænum í rauntíma. Nýjar upplýsingar verða uppfærðar á 10 mín. fresti.  Gamli mælirinn er að sögn Þorsteins nákvæmur en hann tók inn á sig loft um síu sem skipt var um sjálfvirkt einu sinni á sólarhring.  Síunum var síðan safnað saman, þær sendar til Umhverfisstofunar þar sem lesið var úr þeim og þær vigtaðar. „Þetta eru nákvæmar mælingar, en það má frekar orða það svo að við höfum verið að safna saman upplýsingum en að gefa upplýsingar um svifryk einmitt á þeim tíma sem það er hvað mest," segir Þorsteinn.  Hann segir að undanfarna daga hafi mælst „slatti" af svifryki í bænum, en það þó ekki farið yfir heilsuverndarmörk.

Nýjast