Sviflínur yfir Glerárgil njóta mikilla vinsælda

Jón Heiðar Rúnarsson og Anita Hafdís Björnsdóttir er í forsvari fyrir Zipline Akureyri sem komið hef…
Jón Heiðar Rúnarsson og Anita Hafdís Björnsdóttir er í forsvari fyrir Zipline Akureyri sem komið hefur upp 5 sviflínum sem krossa Glerárgil. Viðbrögð hafa verið mjög góð. Mynd MÞÞ

„Við erum að bæta við aukaferðum, það er allt að bókast upp hjá okkur um verslunarmannahelgina. Við reynum að gera okkar besta til að anna eftirspurn,“ segir Anita Hafdís Björnsdóttir sölu- og markaðsstjóri Zipline Akureyri. Félagið býður upp á ferðir með sviflínubrautum sem krossa Glerárgil, þær eru fimm talsins og þar er að finna stærstu braut af þessu tagi hér á landi, 260 metra langa.

Anita segir að komin sé nokkur reynsla á reksturinn, en brautirnar voru opnaðar um miðjan júlí. Til stóð að byrja fyrr en tafir sem tilkomnar voru beint og óbeint vegna ástands í heiminum gerðu að verkum að ekki var unnt að opna fyrr.

Uppselt var í allar ferðir um liðna helgi og bætt við aukaferð sem seldist upp á hálftíma. Þegar sú staða kemur upp á fólk forfallast eins og gerist segir hún seljast upp á augabragði, jafnvel áður en hægt er að auglýsa. „Það hefur greinilega verið vöntun á þessu ævintýri hér í bænum,“ segir hún.

Geggjað að virða Glerá fyrir sér ofan frá

„Við erum innilega þakklát fyrir þessar góðu viðtökur sem við höfum fengið, hjá bæjarbúum, innlendum sem erlendum ferðamönnum. Með þessu áframhaldi er ljóst að þetta er komið til að vera hér á Akureyri,“ segir Anita. Gestir séu mjög ánægðir með upplifunina, bæði sviflínubrautina og náttúruna. „Ferðin hefur opnað mörgum nýja vídd á þessa náttúruperlu sem Glerárgilið er.“

Anita segir að við alla hönnun og smíði til dæmis palla og gerð göngustíga hafi verið lögð áhersla á að hrófla sem minnst við náttúrunni á staðnum, heldur vinna með henni og kringum hana. „Við notuðum sem mest þá stíga sem fyrir voru og við lögðum leiðina þannig að við gætum notið náttúrunnar sem best. Það má segja að leiðin sem við höfum sett upp hafi opnað alveg nýtt svæði í gilinu og fólk hefur á orði að það sé geggjað að virða ána fyrir sér ofan frá.“

Anita og Jón Heiðar Rúnarsson eiga fyrirtækið ásamt vinum sínum sem starfa í Vík í Mýrdal og reka þar Zipline Iceland og True Adventure. Hollenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í sviflínum, klifur og ævintýragörðum sá um uppsetningu á línum og fulltrúar frá belgísku fyrirtæki vottuðu línurnar.

Loksins ánægður á Pálmholti

Jón Heiðar borinn og barnfæddur Akureyringur. Hann hefur lengi starfað við ferðaþjónustu og hafði lengi dreymt um að gera eitthvað skemmtilegt í bænum, sá þörf á spennandi afþreyingu inni í bænum sjálfum. Sá draumur hans hefur heldur betur ræst nú.

Félagið hefur aðsetur í gamla leikskólanum á Pálmholti, þar hefst ferðin. „Við erum að gantast með það að Jón Heiðar sé loksins komin á Pálmholt, en hann átti í eina tíð að vera þar í leikskóla, en mótmælti ítrekað og strauk reglulega. Alveg þangað til mamma hans gafst upp og hann fékk að vera heima. Mamma hans vann í staðinn kvöldvinnu. Nú tæpum 50 árum síðar er hann loksins búinn að samþykkja vistina. Það má segja að við höfum verið heppin að fá leikskólapláss,“ segir Anita. Félagið leigir hluta af gamla Pálmholti og segir hún aðstöðuna eins og sniðna fyrir starfsemina. „Þetta starf snýst um að leika sér.“

Sviflínurnar eru fimm talsins og er farið yfir Glerá fram og til baka. Lengsta sviflína landsins er í Glerárgili, hún er í allt 260 metra löng. Hver ferð tekur um 1,5 klukkustund og eru hópar í hverri ferð litlir, 12 manns geta bókað í hverja ferð. Anita segir að vinsælt sé meðal alls kyns hópa að fara í þessar ferðir.


Athugasemdir

Nýjast