Athugasemdir hafi borist frá sveitarfélögum í Eyjafirði vegna tillögu Akureyrarbæjar um þrengingu Glerárgötu í fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulagi bæjarins 2018- 2030. Sveitarstjórnir Dalvíkurbyggðar, Grýtubakkahrepps, Svalbarðsstrandarhrepps, Hörgárbyggðar og Eyjafjarðarsveitar gera Glerárgötu að umtalsefni í athugasemdum.
Í athugasemdum sveitarfélaganna segir m.a. að þrenging Glerárgötu varði hagsmuni allra íbúa við Eyjafjörð, sem og annarra sem eiga leið gegnum bæinn. Þannig mun þrengingin bitna á öllum íbúum og atvinnurekendum sveitarfélaganna sem leggja þurfi leið sína gegnum Akureyri.
Í svari Akureyrarbæjar við athugasemdunum segir að þrátt fyrir að Glerárgata verði þrengd geti hún samt sem áður annað mikilli umferð, og samkvæmt umferðarspá fram til ársins 2030 mun þrengingin ekki hafa teljandi áhrif á umferðarflæði um götuna. „Þjónustustig götunnar verður áfram gott, og ekki er líklegt að þrengingin skapi sérstök umferðarvandamál,“ segir m.a. í svari bæjarins.
Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, gerir Glerárgötu að umtalsefni í grein sem hann skrifar í Vikudag sem kemur út í dag og gagnrýnir harðlega fyrirhugaða framkvæmd. „Það væri hrein sóun á skattfé Akureyringa að hliðra Glerárgötunni og þrengja hana. Það er mikilvægt að taka ákvörðun sem allra fyrst um að hætta við þessar framkvæmdir og endurskoða stærðir byggingarreita á Hofsbótarreitnum, þannig að hægt sé að fara að huga í alvöru að uppbyggingu þar, þegar byggingarframvæmdum á Drottningarbrautarreitnum lýkur. Þá verði einnig farið að huga að varanlegum leiðum til að auka umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Þannig nýtum við skattfé á skilvirkan hátt,“ segir Gunnar m.a. í greininni.