Sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi eystra gagnrýna fjögurra ára samgönguáætlun

Í fjögurra ára samgönguáætlu  er ekki gert ráð fyrir að ljúka við gerð flughlaðs við Akureyrarflugvö…
Í fjögurra ára samgönguáætlu er ekki gert ráð fyrir að ljúka við gerð flughlaðs við Akureyrarflugvöll . Mynd/Þorgeir Baldursson

Í samgönguáætlun fyrir árin 2015 til 2018 er ekki gert ráð fyrir að Dettifossvegur verði kláraður eins og áður hefur komið fram á dagsrain.is. Þetta gagnrýna sveitastjórnarmenn á Norðurlandi eystra og segja að vegurinn sé lykillinn að ferðaþjónustu sem nú þegar er byrjað að markaðssetja undir heitinu Demantshringurinn.

Þetta kemur fram í umsögnum við samgönguáætlun fyrir árin 2015 til 2018 sem nú er í meðförum Alþingis. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps lýsir miklum vonbrigðum með þá forgangsröðun í samgönguáætlun að ekki sé gert ráð fyrir að lokið verði við Dettifossveg á tímabilinu. Vegurinn sé gríðarlega mikilvæg samgöngubót til að tengja saman byggðir á Norðausturhorninu og gegni veigamiklu hlutverki í áframhaldandi þróun ferðaþjónustu.

Stjórn Eyþings, sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, gagnrýnir að hvorki sé gert ráð fyrir að ljúka við Dettifossveg né flughlað við Akureyrarflugvöll. Báðar framkvæmdir séu mikilvægar fyrir ferðaþjónustu og atvinnulíf á Norðurlandi eystra. Bæjarstjórn Akureyrar sendi inn svipaða umsögn. Í umsögninni er gagnrýnt að hvorki sé gert ráð fyrir að ljúka gerð flughlaðs né Dettifossvegar.

Til þess að fleiri flugvélar rúmist á Akureyrarflugvelli er nauðsynlegt að lokið verði við gerð flughlaðsins. Forsvarsmenn tveggja fyrirtækja lýstu því nýlega yfir að þeir hugleiddu að flytja starfsemi sína til Grænlands vegna þrengsla á flugvellinum. Keldhverfungar og fleiri vilja ljúka Dettifossvegi hið snarasta til að styrkja ferðaþjónustu og samgöngur. Vegurinn er hugsaður sem mikilvægur hluti af Demantshringnum svokallaða, um Ásbyrgi og Hljóðakletta, Dettifoss og Mývatn auk þess sem Goðafoss og Krafla eru í nágrenni við hringinn. /epe

Nýjast