Sveitarstjóri Þingeyjarsveitar hefur látið af störfum

Jón Hrói ásamt Gerði Sigtryggsdóttir, oddvita sveitarstjórnar þegar sá fyrrnefndi var ráðinn í haust…
Jón Hrói ásamt Gerði Sigtryggsdóttir, oddvita sveitarstjórnar þegar sá fyrrnefndi var ráðinn í haust. Mynd/Þingeyjarsveit

Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar í gær var tekin fyrir beiðni Jóns Hróa Finnssonar sveitarstjóra um að vera leystur frá störfum. Í uppsagnarbréfi Jóns Hróa kemur fram að ástæður hans fyrir uppsögninni eru af persónulegum toga. Sveitarstjórn féllst á uppsögnina. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sveitarfélagsins. 

Tilkynnt var um ráðningu Jóns Hróa sem sveitarstjóra sameinaðs sveitarfélags Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps sl. haust. Sveitarfélagið hlaut nafnið Þingeyjarsveit.

Ekki var eining í sveitarstjórn um ráðninguna en K-listafólk óskaði Jóni Hróa til hamingju með starfið, lýstu yfir vonbrigðum með ráðningarferlið og töldu að hæfasti umsækjandinn hafi ekki orðið fyrir valinu.

„K-listi bókar vonbrigði við ráðningarferli starfs sem nú verður titlað sveitarstjóri. Mat fulltrúa listans er að allt frá því starf sviðsstjóra var auglýst, án umræðu, samráðs eða samþykktar sveitarstjórnar hafi verið ljóst hver ætti að hljóta starfið og því hafi tíma umsækjenda og þeirra sem tóku þátt í ráðningarferlinu verið sóað. Þá vekur athygli að enginn á E-lista tók þátt í ráðningarferlinu öllu,“ segir í bókun K-listans.

Jón Hrói  lét af starfi sveitarstjóra í gær, 19. janúar og Gerður Sigtryggsdóttir tekur við framkvæmdastjórn sveitarfélagsins.


Athugasemdir

Nýjast