Sveitarfélög standi vörð um velferð og öryggi nemenda

Giljaskóli á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Giljaskóli á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Ársfundur Skólastjórafélags Íslands haldinn í Reykjanesbæ um síðustu helgi beinir því til sveitarfélaga að standa vörð um velferð og öryggi nemenda og tryggja að ekki verði gengið á lögvarða hagsmuni þeirra í þeirri fjárhagsáætlunargerð sem nú stendur yfir. Skólastjórafélag Íslands telur brýnt að samstaða ríki um að hlúð sé að skólastarfinu, ekki síst á erfiðum tímum, og því er mikilvægt að sveitarstjórnir vandi vinnubrögð sín og leiti aukins samráðs við skólastjórnendur við gerð fjárhagsáætlana.

Hafa ber í huga að grunnnám nemenda hefur mótandi og varanleg áhrif á framtíð þeirra og því mikilvægt að starf skólanna verði ekki fyrir varanlegum skaða vegna vanhugsaðra sparnaðaraðgerða. Fjárframlög til grunnskóla hafa verið skorin niður jafnt og þétt undanfarin ár.  Nú er mál að linni. Álag á starfsmenn hefur aukist, meðal annars vegna aukinna krafna frá menntayfirvöldum, sveitarstjórnum, foreldrum og nemendum. Ný aðalnámskrá grunnskóla gerir breyttar kröfur til faglegrar vinnu og fjárhagslegra bjarga. Þar er að finna meðal annars breyttar áherslur á fyrirkomulagi kennslu og námsmats og aukið samstarf við foreldra og nemendur.  Ljóst er að ekki verður hægt að koma til móts við þær kröfur ef fjármagn til skólastarfs minnkar enn frekar.

 

Nýjast