Sveinbjörn: Sýndum okkar rétta andlit

Sveinbjörn Pétursson átti góðan leik í kvöld.
Sveinbjörn Pétursson átti góðan leik í kvöld.

Sveinbjörn Pétursson átti góðan leik í marki Akureyrar í kvöld og varði 18 skot í 34-26 sigri norðanmanna á heimavelli gegn Aftureldingu í N1-deild karla í handknattleik í kvöld. „Þetta var góður sigur og við vorum staðráðnir í að hysja upp um okkur buxurnar eftir skellinn í bikarnum. Við sýndum okkar rétta andlit í kvöld. Við slökuðum kannski fullmikið á í restina en þetta var aldrei í hættu hjá okkur,“ sagði Sveinbjörn eftir leik.

Reynir Þór Reynisson, þjálfari Aftureldingar, var ánægður með karakterinn í sínu liðið en Mosfellingar gáfust ekki upp þrátt fyrir að lenda ellefu mörkum undir. „Við náðum að koma vel til baka og það er það jákvæða sem ég tek út úr þessum leik. Mér finnst eins og síðustu tveir leikir sitja enn í okkur. Sérstaklega sigurleikurinn gegn Fram en það fór mikið púður í þann leik og við virðumst ennþá vera að ná okkur eftir það. Við höfum hins vegar sýnt að við getum staðið í þessum bestu liðum og munum bara spýta í lófana,“ sagði Reynir Þór eftir leik.

Akureyri sækir FH heim í Kaplakrika og þar eiga norðanmenn slæmar minningar frá leiknum í bikarnum á sunnudaginn var. Sveinbjörn segist hins vegar varla geta beðið eftir þeim leik. „Ég hefði nú helst viljað mæta þeim aftur daginn eftir til að leiðrétta þetta. Ég get allavega lofað því að við erum ekki að fara að bjóða upp á einhvern sirkus þar aftur eins og í bikarnum og ætlum sannarlega að bæta upp fyrir það í næsta leik,“ sagði Sveinbjörn.

Nýjast