Sveinbjörn: Langþráður sigur

Sveinbjörn Pétursson átti stóran þátt í sigri Akureyrar í kvöld.
Sveinbjörn Pétursson átti stóran þátt í sigri Akureyrar í kvöld.

Sveinbjörn Pétursson átti frábæran seinni hálfleik í marki Akureyrar sem lagði HK að velli í kvöld, 31-28, á heimavelli sínum í N1-deild karla í handknattleik. Sveinbjörn hafði hægt um sig í fyrri hálfleik en reis upp í þeim seinni og varði tólf skot, en alls varði hann sautján skot í leiknum. Hann var að vonum ánægður með sigurinn í kvöld er Vikudagur ræddi við hann eftir leik, en þetta var fyrsti sigur Akureyringa á HK í vetur í þremur leikjum. „Það er óhætt að segja að þetta hafi verið langþráður sigur og það hefði verið ömurlegt að fara í gegnum deildarkeppnina með þrjú töp á móti HK. Við sýndum það í kvöld að við getum vel unnið þetta lið en það var fyrst og fremst góð frammistaða í seinni hálfleik sem skilaði sigri,“ sagði Sveinbjörn, sem var sáttur með sinn leik.

„Ég er ánægður með seinni hálfleikinn hjá mér. Það gekk alveg nógu vel í þeim fyrri þar sem HK var einfaldlega skrefinu framar. En við tókum okkur allir í gegn í hálfleik og það var mjög ánægjulegt að geta boðið upp fína frammistöðu hérna í restina fyrir framan frábæra áhorfendur,“ sagði Sveinbjörn, en 924 áhorfendur í Höllinni létu vel í sér heyra.

Vilhelm Gauti Bergsveinsson, fyrirliði HK, var svekktur í leikslok en hrósaði hins vegar áhorfendum leiksins í hástert.

„Það hefði verið gaman að vinna alla þrjá leikina gegn Akureyri í deildarkeppninni en því miður hafðist það ekki. Dómarar leiksins fá ekki háa einkunn hjá mér en við verðum fyrst og síðast að líta í okkar eigin barm. Við vorum skrefinu á undan í fyrri hálfleik en það fór allt í baklás í þeim seinni. Ég verð samt að hrósa áhorfendum í Höllinni fyrir frábæra stemmningu. Ég tek það sem mesta jákvæða hlutinn úr leiknum hvað stemmningin hér var góð. Ég vona bara að við mætum Akureyri í úrslitakeppninni,“ sagði Vilhelm að lokum.

Nýjast