Markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson hefur ákveðið að yfirgefa handknattleikslið Akureyrar og halda í atvinnumennsku í haust, samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vikudags. Sömu heimildir herma að Sveinbjörn hafi ákveðið að semja við lið í 2. deildinni í Þýskalandi en ekki er ljóst um hvaða lið ræðir eða hversu langur samningurinn er. Sveinbjörn hafði nýlega undirritað nýjan eins árs samning við Akureyrarliðið, en samningurinn var uppsegjanlegur bærist tilboð frá öðrum liðum.
Sveinbjörn hefur verið lykilmaður í liði Akureyrar undanfarin ár og verið einn besti markvörður N1-deildarinnar. Nýlega lagði varnartröllið Guðlaugur Arnarsson skóna á hilluna og því stór skörð höggvin í leikmannahóp norðanmanna á skömmum tíma.