Sumarið fyrir Norðan: Ekki búið enn
Veðurstofan gerir ráð fyrir að þurrt verði verði og bjart á Norður og Austurlandi á næstunni.
„Hlýr sunnanvindurinn heldur aftur af hafgolu og nær hitinn í um eða yfir 20 stig þegar best lætur á þessum slóðum,“ segir í veðurskeyti Veðurstofunnar í morgun.
Sunnanáttin hefur verið ríkjandi á landinu undanfarna daga. Nú hefur dregið úr styrk hennar og verður hún á bilinu 5-13 m/s í dag. Þá hefur dregið úr úrkomumagni, en þó verður ekki alveg þurrt sunnan- og vestanlands, þar má búast við dálítilli vætu af og til.
Í kvöld dregur meira úr vindi á landinu, en úrkomusvæði nálgast úr suðri og mun rigna úr því nokkuð víða í nótt, sérílagi suðaustantil. Þegar kemur fram á morgundaginn rofar aftur til norðanlands, en einhver smávegis væta verður áfram viðloðandi sunnan heiða. Hæg sunnanátt heldur áfram á fimmtudag og enn eru líkur á lítilsháttar dropum á Suður- og Vesturlandi, en fyrir norðan og austan verður bjart og fremur hlýtt.
Á föstudag er síðan útlit fyrir hæga breytilega átt á landinu og að víða verði þurrt og bjart og hiti 15 til 18 stig yfir hádaginn. Líkur eru á að milt og rólegt veður haldi áfram á landinu um helgina.