Suðrið andar í Listhúsi Ófeigs

Við Loðmundarvatn, Verk eftir Ragnar
Við Loðmundarvatn, Verk eftir Ragnar

Laugardaginn 24. júlí kl. 15 opnar Ragnar Hólm málverkasýninguna Suðrið andar í Listhúsi Ófeigs að Skólavörðustíg 5 í Reykjavík. Þetta er 19. einkasýning Ragnars og að þessu sinni sýnir hann ný olíumálverk og vatnslitamyndir.

Málverk Ragnars eru að mestu óhlutbundin eða abstrakt expressjónísk og þar blandast saman heitir suðrænir litir og jarðarlitir Íslands. Spænsk áhrif eru á köflum nokkuð augljós en Ragnar hefur síðustu árin varið talsverðum tíma á Spáni og sótt þar ýmis námskeið í meðferð lita.

„Það er alltaf gaman að eiga við vatnslitina og ég hef reynt að temja mér það að æfa mig á hverjum degi. Hins vegar er krafturinn sem olíulitirnir bjóða upp á mjög freistandi og mér finnst gaman að tefla saman djörfum tónum sem minna mig á sumrin í Andalúsíu og þyngri en þó hlýjum tónum íslenskrar náttúru,“ segir Ragnar Hólm um verkin sín.

Ragnar Hólm Ragnarsson er fæddur á Akureyri 1962. Síðasta rúma áratuginn hefur hann notið handleiðslu myndlistarmannsins Guðmundar Ármanns og einnig nokkrum sinnum sótt námskeið hjá hinum þekkta sænska vatnslitamálara Björn Bernström, auk þess að hafa tekið þátt í fjölda vinnustofa og sótt námskeið hjá ólíkum málurum á Spáni og Ítalíu. Verk Ragnars hafa verið valin á fjölda samsýninga evrópskra vatnslitamálara, nú síðast í Fabriano á Ítalíu skömmu fyrir kófið. Síðustu árin hefur olíumálverkið orðið æ fyrirferðarmeira í list Ragnars.

Sýningin stendur til 18. ágúst.

 

Opið er frá kl. 10-18 mánudaga til föstudaga og 11-16 á laugardögum.


Nýjast